Stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum

Þriðjudaginn 14. mars 2000, kl. 14:46:43 (5221)

2000-03-14 14:46:43# 125. lþ. 78.2 fundur 407. mál: #A stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum# (flutningur aflahámarks) frv. 36/2000, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 125. lþ.

[14:46]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er alveg reiðubúinn að hlusta á allar tillögur hv. þm. og taka fullt tillit til þeirra og hef áhuga á því að sjá sumar þeirra. Sú till. til þál. sem hann nefndi áðan kemur til umræðu á eftir og er ástæðulaust að lengja tímann með umræðu um hana. Þar er m.a. gert ráð fyrir því að afla skuli gagna um tiltekna hluti og það er bara gott. Mörgu af því er verið að safna saman einmitt núna, m.a. í nefnd um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða sem starfar á vegum hæstv. sjútvrh. Þar hefur verið beðið um ýmsar af þeim upplýsingum sem koma fram í þessari þáltill., svo sem um skiptingu fiskiskipaflotans en það er bara hið besta mál að afla þessara gagna. En það kemur að því að menn verða að hætta að afla gagna og fara að leggja fram tillögur. Ég segi alveg eins og er að ég er mjög áhugasamur um að sjá þær. Menn hafa rætt í mörg ár um eitthvað sem menn kalla byggðakvóta. Það er mjög áhugavert viðfangsefni en ég man ekki til þess að nokkurn tíma hafi verið lagt fram, a.m.k. ekki á Alþingi, nein tillaga um það hvernig menn hugsa það mál. Eru menn að hugsa svipaða lausn og hæstv. ríkisstjórn komst að, sem hefur lagt fram ákveðna tillögu um ráðstöfun á byggðakvóta gegnum Byggðastofnun? Eru menn að hugsa um einhverja aðra útfærslu á því? Það er kominn tími til þess eftir allar umræðurnar að menn leggi fram einhverja tillögu um það hvernig þeir ætla að framkvæma þetta ágæta markmið. Ég er mjög áhugasamur um að sjá tillögur frá þeim sem hafa áhuga á því af því að ég hef áhuga á þessu máli sjálfur. Ég lýsi einfaldlega eftir því við vin minn, hv. þm. Steingrím J. Sigfússon, ég hvet hann til þess að leggja fram hvernig hann hyggst útfæra þessar ágætu hugmyndir því að ég hef mikinn áhuga á því að sjá þá útfærslu, ekki síst ef ég gæti tekið undir það með honum. En á meðan þetta er almennt snakk án þess að það sé nein ákveðin útfærsla á því er svolítið erfitt að taka á því, herra forseti.