2000-03-15 13:59:00# 125. lþ. 79.94 fundur 378#B yfirlýsing ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga um hækkun tryggingabóta# (umræður utan dagskrár), Flm. ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 125. lþ.

[13:59]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég mun láta bíða síðari tíma að ræða fullyrðingar hv. þm. Ástu Möller um bættan hag almenningi til handa vegna yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar vegna þess að þær eru rangar. Skattleysismörkin eiga að halda í við lágmarks umsamda launaþróun og fela ekki í sér nein útgjöld fyrir ríkissjóð, engin. Hins vegar er því ekki skilað til baka sem tekið hefur verið að fólki í þeim efnum á undangengnum árum. Skattleysismörkin ættu núna að vera langt yfir 80 þús. kr. en eru 62 þús. kr. fyrir þessa hópa. Og varðandi barnabæturnar þá á að byrja að skila í áföngum hluta af því sem tekið hefur verið af barnafólki á undangengnum árum. Í upphafi áratugarins voru barnabætur 1,21% af vergri landsframleiðslu en eru nú 0,60%. Þessu á að skila í áföngum --- þetta er kosningaloforð Framsfl. --- í tengslum við kjarasamninga. Þetta bíður síðari tíma.

[14:00]

Hæstv. forsrh. segist fagna því að fá tækifæri til að ræða þessi mál. Já, það er ágætt að ræða þessi mál hér, lögbrot ríkisstjórnarinnar gagnvart öryrkjum og ellilífeyrisþegum á síðasta ári. Ég hef sýnt fram á það með óyggjandi tölum sem ekki verður deilt um vegna þess að þær eru fengnar frá Tryggingastofnun. Bætur í gegnum almannatryggingakerfið hafa hækkað minna en lög kveða á um, 5,73% á síðasta ári á sama tíma og launavísitala hækkaði um 6,8%. Staðreyndin er sú að þetta bil mun enn gliðna á komandi árum. Eftir þrjú ár eiga lægstu laun að vera komin í 91 þús. kr. Öryrki eða ellilífeyrisþegi sem getur fengið allar hugsanlegar bætur verður þá kominn í 76.176 kr. En innan við 3% lífeyrisþega og öryrkja eru á þessum bótum. Sá hópur eða flestir eru núna á 47 þús. kr. ef við tökum strípaðar greiðslur og þeir munu fara í 51.787 kr. á þessu tímabili. Þetta er svívirðilegt.