Varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna

Fimmtudaginn 16. mars 2000, kl. 10:31:18 (5368)

2000-03-16 10:31:18# 125. lþ. 81.2 fundur 405. mál: #A varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna# frv. 82/2000, utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 125. lþ.

[10:31]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Með frv. því sem hér er flutt er tekið heildstætt á ýmsum málum sem tengjast varnarsamstarfi Íslands og Bandaríkjanna, einkum viðskiptum íslenskra aðila við varnarliðið. Þar er fest í sessi sú frjálsræðisþróun sem orðið hefur á síðustu árum í verktöku fyrir varnarliðið og tryggður fullnægjandi lagarammi í því efni. Enn fremur er treystur lagagrunnur fyrir stjórnsýslu á varnarsvæðunum í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru til nútímalegra stjórnsýsluhátta.

Í frv. er að finna skýr og ótvíræð ákvæði um starfsemi kaupskrárnefndar varnarsvæða. Einnig er að finna í frv. ákvæði um heimildir utanrrh. til að takmarka aðgang að varnarsvæðunum sem hingað til hafa einungis verið byggðar á ákvæðum loftferðalaga. Rétt þykir að skýrt verði kveðið á um þær í frv. jafnframt því sem úrelt lög um sama efni frá árum seinni heimsstyrjaldar eru felld úr gildi.

Þá er að finna ákvæði um undanþágu varnarliðsins frá skattskyldu sem ætlað er að skýra óvissu sem verið hefur í framkvæmd. Varnarliðið nýtur eins og kunnugt er skattfrelsis samkvæmt ákvæðum varnarsamningsins en mismunandi túlkanir hafa verið uppi um hverjir teljist til varnarliðsins í þessum skilningi. Horfa þessar breytingar sem aðrar fyrst og fremst til þess að einfalda lagarammann um starfsemi varnarliðsins og hlutverk utanrrn. í því sambandi ásamt því að skýra réttarstöðu einstaklinga og lögaðila.

Snar þáttur í frv. varðar viðskipti íslenskra aðila við varnarliðið. Í samræmi við ákvæði varnarsamningsins og afleiddra samninga gerir frv. ráð fyrir að tilnefning af hálfu íslenskra stjórnvalda sé forsenda þess að samningar íslenskra aðila við varnarliðið séu gildir. Gert er ráð fyrir að samningar við varnarliðið fari almennt um hendur íslenskra stjórnvalda og fram fari forval hæfra viðskiptaaðila eftir íslenskum reglum.

Að því er verksamninga við varnarliðið varðar er þó gert ráð fyrir aðlögunarferli í samræmi við samninga milli Íslands og Bandaríkjanna þar að lútandi. Forvalsnefnd ber að leggja mat á efnisleg skilyrði sem fyrirtæki þurfa að uppfylla auk þess að taka mið af öryggissjónarmiðum. Meðal skilyrða sem kveðið er á um í frv. er að um íslensk fyrirtæki sé að ræða. Er það hugtak skilgreint til að tryggja efnahagsleg tengsl fyrirtækis við Ísland. Ef samið er án undanfarandi tilnefningar eru samningar ógildir sem og ef forsendur tilnefningar bresta á samningstíma.

Samningar íslenskra og erlendra aðila við varnarliðið sem stríða gegn ákvæðum varnarsamningsins eða afleiddra samninga eru enn fremur ógildir ef frv. þetta verður að lögum. Og í frv. er lagt bann við framkvæmd ógildra samninga.

Herra forseti. Með frv. er ítarleg greinargerð og ég sé ekki ástæðu til að rekja efni hennar. Gerðar eru ítarlegar athugasemdir við frumvarpsgreinarnar og ég vil því leggja til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til hv. utanrmn.