Skipti á upplýsingum um tæknilegar reglur um vörur og fjarþjónustu

Fimmtudaginn 16. mars 2000, kl. 12:09:45 (5397)

2000-03-16 12:09:45# 125. lþ. 81.3 fundur 452. mál: #A skipti á upplýsingum um tæknilegar reglur um vörur og fjarþjónustu# (EES-reglur) frv. 57/2000, utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 125. lþ.

[12:09]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Tilgangur þessa lagafrv. er að uppfylla samningsskuldbindingar Íslands varðandi upplýsingaskipti á tæknilegum reglum um vörur og fjarþjónustu sem haft geta í för með sér óheimilar tæknilegar viðskiptahindranir, samanber samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og samning Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um tæknilegar viðskiptahindranir.

Í frv. er skilgreint hvaða reglur teljast tæknilegar reglur og þar með hvaða reglur þarf að tilkynna samkvæmt ákvæðum fyrrnefndra samninga. Tæknileg regla í skilningi frv. eru lög, reglugerðir eða önnur stjórnvaldsfyrirmæli sem fjalla annars vegar um eiginleika vöru, t.d. varðandi gæði og öryggi, og hins vegar um fjarþjónustu, þ.e. þjónustu sem veitt er gegn þóknun með rafrænum hætti.

Talið er nauðsynlegt að setja rammalög um upplýsingaskipti þessi til að renna sterkari stoð undir framkvæmd þeirra. Með frv. eru tekin upp ákvæði tilskipunar sem fyrirhugað er að taka upp í EES-samninginn og fjallar um skipti á upplýsingum um tæknilegar reglur, um fjarþjónustu, en slík ákvæði náðu áður einungis til vöru.

Ef frv. þetta verður að lögum mun það enn fremur veita afdráttarlausari heimild fyrir setningu reglugerðar um skipti á upplýsingum um tæknilegar reglur um vörur. Frv. beinist að stjórnvöldum og felur í sér ákvæði varðandi tilhögun upplýsingaskipta um tæknilegar reglur. Í því felst að tilkynnt sé til Eftirlitsstofnunar EFTA og Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um áform um setningu tæknilegra reglna.

Með þessu móti gefst EES-ríkjunum og þeim ríkjum sem aðild eiga að Alþjóðaviðskiptastofnuninni tækifæri á að kynna sér ákvæði reglnanna. Jafnframt skapast tækifæri fyrir íslensk stjórnvöld og hagsmunaaðila að kynna sér og gera athugasemdir við drög að tæknilegum reglum sem hingað berast frá fyrrnefndum ríkjum.

Tilgangurinn með þessu fyrirkomulagi er að minnka líkurnar á því að tæknilegar viðskiptahindranir myndist vegna sérstakra krafna í reglum einstakra ríkja. Almennt gildir að tæknilegar reglur skuli ekki setja formlega nema þriggja mánaða frestur hafi verið gefinn öðrum ríkjum til umsagnar. Í frv. felst því skuldbinding fyrir stjórnvöld að tæknileg regla verði ekki endanlega samþykkt eða frv. til laga sem felur í sér tæknilegar reglur verði ekki lagt fyrir Alþingi fyrr en þrír mánuðir eru liðnir frá því að tilkynnt var um fyrirhugaða setningu í samræmi við ákvæði umræddra milliríkjasamninga. Ef verulegar efnisbreytingar verða eftir tilkynningu ber að tilkynna þær breytingar. Ráðgert er að sá aðili sem semur tæknilega reglu beri ábyrgð á því að hún sé tilkynnt til utanrrn. sem annast samskipti við nefndar alþjóðastofnanir. Jafnframt er lagt til að utanrrn. geti með samningi falið annarri stofnun framkvæmd upplýsingamiðlunar af þessu tagi.

Til að annast skipulega dreifingu upplýsinga eins og ráð er fyrir gert í samningnum, þ.e. þeim samningi sem hér um ræðir, þarf að koma á sérstöku kerfi sem tryggir rétt íslenskra stjórnvalda og hagsmunaaðila til að kynna sér tæknilegar reglur annarra ríkja og gera við þær athugasemdir með viðskiptahagsmuni okkar í huga. Auk þess þarf að virða þá skuldbindingu að tilkynna skipulega um áform að setningu tæknilegra reglna hér á landi.

Ég vil leggja til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði frv. þessu vísað til hv. utanrmn.