Skipti á upplýsingum um tæknilegar reglur um vörur og fjarþjónustu

Fimmtudaginn 16. mars 2000, kl. 12:22:33 (5400)

2000-03-16 12:22:33# 125. lþ. 81.3 fundur 452. mál: #A skipti á upplýsingum um tæknilegar reglur um vörur og fjarþjónustu# (EES-reglur) frv. 57/2000, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 125. lþ.

[12:22]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir svörin og að sjálfsögðu var spurning mín hvað varðar Löggildingarstofuna ekki fram borin af neinu vantrausti til þeirrar stofnunar. Ég treysti henni að sjálfsögðu fullkomlega fyrir svona verkefni og ég geri ráð fyrir því að það sé hagkvæmt fyrirkomulag að fela henni að annast þetta og augljóslega mun praktískara fyrirkomulag en setja upp eitthvert sjálfstætt batterí í þessum efnum. Hinn möguleikinn hefði væntanlega verið sá að ráðuneytið sjálft hefði í sérstakri deild eða með sérstökum starfsmanni annast þetta.

Ef engin stjórnskipuleg vandkvæði eru á því að fela slíkum aðila þetta hlutverk geri ég ekki neinar athugasemdir við það en ég leyfi mér enn að draga í efa að það muni duga lengi að hafa í því einn starfsmann en þó getur svo sem vel verið að ég sé óþarflega svartsýnn í þeim efnum.

Varðandi Alþjóðaviðskiptastofnunina þá deili ég þeirri skoðun með hæstv. utanrrh. Ég hefði miklu frekar viljað sjá þróun mála fara í þá átt að samræmdar almennar leikreglur í alþjóðaviðskiptum færðust meira til Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og yrðu heimsreglur en í minna mæli yrði um að ræða blokkamyndun eða reglur sem tækju til tiltekinna svæða. Að því leyti er þróun alþjóðamálanna mótsagnakennd. Annars vegar er verið að reyna að útfæra og útvíkka alþjóðlegar reglur sem eru að sjálfsögðu til góða svo fremi sem þær eru sanngjarnar og taki eðlilegt tillit til hluta eins og umhverfismála og stöðu þróunarríkja. Hins vegar er í gangi ákveðin tilhneiging til blokkamyndunar milli stóru viðskiptasvæðanna, Evrópusambandsins, Ameríku og Asíu. Á þetta hefur oft verið bent en kannski er ekki auðvelt úr því að ráða. Ég er tvímælalaust þeirrar skoðunar æskilegt væri að breyttu breytanda að þessar reglur yrðu fyrst og fremst heimsreglur og vistaðar hjá Alþjóðaviðskiptastofnuninni.