Friðlýsing Íslands fyrir kjarnorkuvopnum

Fimmtudaginn 16. mars 2000, kl. 14:09:59 (5409)

2000-03-16 14:09:59# 125. lþ. 81.5 fundur 397. mál: #A friðlýsing Íslands fyrir kjarnorkuvopnum# frv., Flm. SJS
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 125. lþ.

[14:09]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir umræðuna og þakka undirtektir hv. síðasta ræðumanns, Sigríðar Jóhannesdóttur. Hvað varðar ræðu hæstv. utanrrh. kom þar fátt á óvart. Þó eru nokkur atriði sem ég vil fjalla um sem komu fram í máli hans. Hæstv. ráðherra taldi að að útrýmingu kjarnorkuvopna, sem hann lýsti sig þó hlynntan sem langtímamarkmiði, og er það vel, yrði ekki unnið með árangursríkum hætti með einhliða yfirlýsingum. Þessu er ég ósammála. Ég tel að sagan sýni akkúrat hið gagnstæða. Ég nefni þar aftur fordæmi Nýja-Sjálands. Nýsjálendingar höfðu þann kjark að þeir kjarnorkufriðlýstu land sitt og bökuðu sér með því mikla óþökk voldugs nágranna sem eru Bandaríkin, eða umsvifamikils aðila í heimshluta þeirra, og það slitnaði upp úr varnarsamstarfi þessara ríkja og hrikti í stoðum samskipta þeirra. Enginn vafi er á því að andrúmsloftið á Nýja-Sjálandi og almenningsálitið þar var jafnandvígt kjarnorkuvígbúnaði og kjarnorkunotkun eins og raun ber vitni, m.a. vegna nálægðarinnar við tilraunasprengingar Frakka í Kyrrahafinu þar sem menn höfðu fyrir sér skelfilegar afleiðingar af kjarnorkumengun, geislamengun og þau ólýðræðislegu og ómanneskjulegu meðul sem þar voru notuð, m.a. brottflutning fólks í stórum stíl af landi sínu til þess að eyðileggja það svo með kjarnorkutilraunum og menga líklega um aldur og ævi. Nýsjálendingar réðust því í það að friðlýsa sitt land og hófu í kjölfarið mjög markvissar aðgerðir gegn framferði Frakka. Þeir höfðu að mörgu leyti forustu í baráttunni gegn framferði Frakka í Suður-Kyrrahafi, sem leiddi til þess ásamt með öflugum þrýstingi alþjóðasamfélagsins að Frakkar gáfust upp að lokum, hættu tilraunasprengingum sínum í Suður-Kyrrahafi og lýstu því svo yfir að þeir mundu þaðan í frá virða kjarnorkufriðlýsingu Suður-Kyrrahafsins, svonefnt Rarotonga-samkomulag, sem stækkaði auðvitað við hina víðlendu sérefnahagslögsögu Nýja-Sjálands og hina víðlendu sérefnahagslögsögu þess. Ég tel því að einmitt þetta fordæmi sé borðleggjandi um það að með því að sýna þann kjark sem Nýsjálendingar gerðu geti menn náð árangri.

Ég tek undir það og kom reyndar lítillega inn á það í máli mínu að ýmislegt jákvætt væri þrátt fyrir allt á döfinni eða hefði gerst í alþjóðastjórnmálum að þessu leyti í á síðustu árum. Þar ber tvímælalaust að nefna samninginn um efnavopn og framlengingu samningsins um bann við frekari útbreiðslu kjarnorkuvopna ,,Non-Proliferation Treaty``, NPT-samningsins sem svo er skammstafaður upp á enska tungu. Það er að sjálfsögðu jákvætt að þeir samningar náðust eða framlengdust, en hitt er mikið áhyggjuefni hver staða þeirra er í alþjóðastjórnmálum um þessar mundir. Á Bandaríkjaþingi eru hlutirnir eins og raun ber vitni að tilraunabannssamningurinn er þar strand, þó kannski sé ekki útséð um að það hafi meira verið af taktískum innanríkispólitískum ástæðum sem meiri hluti repúblikana í báðum deildum þingsins valdi að stoppa hann til að gera forseta erfitt fyrir. Hugsanlega kann það að breytast eftir kosningar í haust. Síðan hafa atburðir, sem orðið hafa í samskiptum t.d. Rússa og Vesturlanda og þá einkum og sér í lagi loftárásir NATO á Júgóslavíu í óþökk Rússa, valdið verulegri kólnun í þeim samskiptum sem hafa síðan leitt til þess að Rússar og Kínverjar hafa aukið samstarf sitt. Rússar hafa minnt nokkuð groddalega á, svo ekki sé meira sagt, að þeir séu kjarnorkuveldi og það svo um munar, búi yfir miklum haug af kjarnorkuvopnum, því miður sjálfsagt í mismunandi góðu ástandi en örugglega nóg til þess að valda jörðinni og lífríkinu óbætanlegum skaða ef ekki útrýmingu ef gripið yrði til þess að nota það af öllu afli.

[14:15]

Ég held að við Íslendingar, herra forseti, ættum líka að hafa í huga að við búum við arfleifð í þessum efnum, sem er ein og sér að mínu mati þannig að við ættum að taka þessi mál alvarlega og hafa þau hér á dagskrá. Ég á við að menjar kalda stríðsins í formi kjarnorkukafbáta eru að ryðga niður í hafinu bæði norðan og sunnan við landið. Enginn er að takast á við þau hrikalegu vandamál sem af því geta stafað þegar kjarnorkukafbátarnir við Bjarnarey og víðar í Norðurhöfum fara að leka, sem því miður eru yfirgnæfandi líkur á að gerist ef ekki innan áratuga þá a.m.k. á næstu öldum. Sama má segja um eitt eða tvö stykki sem talið er að liggi í höfunum hér sunnan við þó að hafstraumar valdi því að vísu að í bráð séu þeir kannski ekki jafnalvarlegt ógnunarefni fyrir okkur Íslendinga eins og hinir sem liggja fyrir norðan okkur og hverra mengun mun fyrr eða síðar berast að Íslandsströndum rétt eins og geislamengunin frá Sellafield og Dounreay, þó að hún fari nokkuð lengri leið.

Herra forseti. Vegna þeirra ummæla sem hæstv. utanrrh. hafði um aðild okkar að NATO og það að aðild okkar að NATO geri það að verkum að við getum ekki samþykkt frv. af þessu tagi þá er það að vísu ekki ný yfirlýsing frá hæstv. utanrrh. heldur gaf hann hana til skýringar á því, m.a. í fyrsta skipti hér þegar hann sem utanrrh. tók þátt í umræðum um þetta frv., að engir framsóknarmenn væru meðflutningsmenn að tillögunni lengur. Þeim hafði þá sem sagt yfirsést, hæstv. núv. félmrh., Páli Péturssyni, og fyrrv. formanni Framsfl. og utanrrh. á einni tíð, Steingrími Hermannssyni, þegar þeir léðu nafn sitt við þessa tillögu, eða hvað? Þeir hafa þá væntanlega ekki áttað sig á því að það jafngilti úrsögn úr NATO. Nema það sé það sem þeir hafi viljað beita sér fyrir. Ég tel að þessi yfirlýsing hæstv. utanrrh. sé gagnmerk og hún var mjög þörf að því leyti til að hún opnaði augu fjölmargra fyrir því að aðild Íslendinga að hernaðarbandalaginu NATO er þá ekki án skuldbindinga. Það fylgja pinklar með, sem sagt þeir að við getum ekki friðlýst land okkar vegna þessarar aðildar. Eða er það ekki það sem hæstv. utanrrh. er að segja? Íslendingar hafa með aðild sinni að NATO og skuldbindingum sem því fylgja fyrirgert rétti sínum til að t.d. friðlýsa landið fyrir kjarnorkuvopnum. Ég les það út úr orðum hæstv. utanrrh. og kemur svo sem ekkert að öllu leyti á óvart vegna þess að NATO byggir á beitingu kjarnorkuvopna sem hluta af varnar- eða hernaðarviðbrögðum sínum. Það kann vel að vera að það mundi valda ýfingum og sennilega rúmlega það ef við Íslandsmenn tækjum okkur til og friðlýstum einhliða lögsögu okkar. Þá er eins gott að það fái að koma fram í dagsljósið. Og hvers vegna skyldum við ekki mega friðlýsa land sem í orði kveðnu er hvort sem er kjarnorkuvopnalaust? Hvernig stendur þá á því? Ég held að hæstv. utanrrh. eigi að fylgja málinu eftir og fara betur yfir það, nákvæmlega hvað það er þá sem kemur í veg fyrir þetta vegna aðildar okkar að NATO.

Eins og hv. þm. Sigríður Jóhannesdóttir minnti líka réttilega á er ein ærin ástæða til að menn treysti varlega því sem þeim er sagt í þessum efnum og geri ráðstafanir sínar sjálfir. Það er sá leyndarhjúpur sem öllu sem lýtur að hagnýtingu kjarnorkunnar, svo ekki sé nú talað um kjarnorkuvígbúnaðinum, fylgir, og við Íslendingar vorum mjög nýlega minntir á þegar hneykslin frá Sellafield komu upp á yfirborðið. Þá voru allir sárir og svekktir og töldu sig grátt leikna og hafða að fíflum o.s.frv., sem sannarlega var rétt, en er þá ekki ástæða til að vera þeim mun tortryggnari og treysta því varlegar en ella að mark sé á öllu takandi sem mönnum er sagt í þessum efnum þegar nágrannaþjóð kemur fram með þeim hætti eins og Bretar gerðu í því tilviki?

Að lokum, af því síðasti ræðumaður vék einnig að því að frv. og þetta mál ætti sér víðar stuðning meðal þjóðarinnar, þá get ég fullyrt að svo er. Ég hef ítrekað orðið var við það á undanförnum árum að þetta mál á sér stuðning meðal þjóðarinnar að svo miklu leyti sem tilvist þess hefur náð að verða heyrum kunn. Ekki hefur tekist hjá voldugum aðilum að þegja það í hel, sem að sjálfsögðu er sérstakt áhugamál ýmissa að láta helst sem minnst fyrir því fara að einhver málafylgja af þessu tagi sé uppi höfð í landinu, vegna þess að á umliðnum árum hef ég iðulega fengið mikil viðbrögð við flutningi þessa frv. og þar á meðal og einna vænst þótti mér þegar nokkur ungmenni í landinu tóku sig saman og söfnuðu þúsundum undirskrifta í skólum landsins til stuðnings því að frv. yrði að lögum og landið yrði friðlýst.

Herra forseti. Ég endurtek að lokum þá trú mína að fyrr eða síðar nái frv. fram að ganga, a.m.k. að hluta til. Með afgreiðslu þess stjfrv. sem snýr að efnavopnunum og liggur fyrir þinginu, verður að sjálfsögðu hluti landsins friðlýstur í þeim skilningi. Ég teldi vissulega koma til greina ef um það mætti nást einhver pólitísk samstaða að líta á einstaka þætti þessa máls, t.d. spurninguna um hvort hægt væri að skapa hér breiðari pólitíska samstöðu en ella um að banna hér umferð kjarnorkuknúinna farartækja og þá fyrst og fremst af umhverfisástæðum, því allt mundi ég flokka sem árangur í þessum efnum sem færði okkur skrefi nær því lokatakmarki að friðlýsa landið og efnahagslögsöguna að fullu og öllu.