Friðlýsing Íslands fyrir kjarnorkuvopnum

Fimmtudaginn 16. mars 2000, kl. 14:32:17 (5412)

2000-03-16 14:32:17# 125. lþ. 81.5 fundur 397. mál: #A friðlýsing Íslands fyrir kjarnorkuvopnum# frv., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 125. lþ.

[14:32]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég er tilbúinn til þess að skilja við málið þannig að það sé ágreiningur um leiðir að marki en ég vil aðeins mótmæla því að litið sé á Atlantshafsbandalagið sem hernaðarbandalag. Ég bið hv. þm. að kynna sér þær breytingar sem hafa orðið á Atlantshafsbandalaginu, á friðarstefnu þess og þær gífurlegu breytingar sem þar eru að eiga sér stað. Þar er um allt önnur samtök að ræða en var um það leyti sem Atlantshafsbandalagið var stofnað enda hafa orðið gífurlegar breytingar í heiminum.

Ég minni t.d. á að settur forseti Rússlands útilokaði það ekki fyrir nokkru síðan að Rússland kynni einhvern tíma í framtíðinni að verða aðili að því bandalagi. Nú ætla ég ekkert að spá fyrir um það hvort og hvenær það geti orðið. En það sýnir mikla breytingu á hugarfari í Evrópu að slíkt skuli vera sagt. Ég hygg að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kæmist að því ef hann kynnti sér þessi mál rækilega, færi t.d. í heimsókn til Atlantshafsbandalagsins, sem ég tel að sé mjög tímabært að hann geri, og kynni sér þetta allt málefnalega. Ég hvet hann til þess og ég skal gjarnan greiða ötullega fyrir því að hann fái þar allar nauðsynlegar upplýsingar, því mér heyrist á öllu að það væri honum hollt. Ég segi það ekki í neinni niðrandi merkingu því að hann hefur breytt um skoðun í ýmsum málum eins og aðrir. Ég hef breytt um skoðun í ýmsum málum og það er ekkert til að skammast sín fyrir.