Friðlýsing Íslands fyrir kjarnorkuvopnum

Fimmtudaginn 16. mars 2000, kl. 14:38:53 (5415)

2000-03-16 14:38:53# 125. lþ. 81.5 fundur 397. mál: #A friðlýsing Íslands fyrir kjarnorkuvopnum# frv., Flm. SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 125. lþ.

[14:38]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé réttara að orða það þannig að ég hef vissulega fylgst með þessum breytingum en ég er bara ekki sammála því að í þeim felist neitt það sem gefi tilefni til að endurskoða grundvallarafstöðu mína til þessa hernaðarbandalags. Það er bara því miður þannig.

Í Alþb. voru vissulega á sinni tíð frjóar umræður um það hvort NATO væri að taka raunverulegum breytingum í kjölfar þess að múrinn féll og Varsjárbandalagið var lagt niður. Ég held því enn fram að þar hafi menn glatað sögulegu tækifæri til þess að koma skipan öryggismála í heiminum yfir á annað og farsælla spor með því að leggja ekki Atlantshafsbandalagið líka niður og efla í staðinn alþjóðlegar öryggisgæslustofnanir og gefa þeim kraft til þess að sinna betur sínu hlutverki, þá væri málum betur fyrir komið, stofnanir eins og ÖSE og Sameinuðu þjóðirnar.

Vissulega hefur NATO verið að leita sér að nýju hlutverki, það er alveg ljóst. Og það hefur nú á köflum verið hent gaman að því að þetta bandalag hafi eiginlega verið eins og atvinnulaus leikari á hlaupum eftir nýjum hlutverkum. Það hafa verið búnar til alls konar krúsidúllur utan um það en svo kom hið rétta í ljós. Hið rétta andlit sýndi sig á nýjan leik t.d. í Kosovo.

Varðandi Rússland að lokum, af því að það var hér nefnt í ræðu hæstv. utanrrh., þá tek ég undir það. Ef stækkun NATO hefði byggt á þeim grunni að Rússland yrði með og ég tala nú ekki um ef það hefði verið í sæmilegu samkomulagi við þau ríki sem Rússland á landamæri að í austri þá hefði öðru verið til að dreifa. Ég nefndi það einmitt í rökræðum um stækkun NATO hér á sínum tíma að megingallinn við þá hugmyndafræði alla væri sá að Rússland væri ekki með og það væri verið að búa til nýjar línur í Evrópu aðeins austar en þær hefðu áður legið.

Það er megingallinn og meginhættan í hinni nýju öryggismálaskipan í Evrópu að Rússland er þar ekki með og það hefur ævinlega gefist illa í Evrópu (Gripið fram í: Þú ert ... með Rússum.) að reyna að horfa fram hjá því að reyna að hafa öryggislausnir þannig að þeir séu þar með.