Mannréttindabrot í Tsjetsjeníu

Mánudaginn 20. mars 2000, kl. 15:14:45 (5449)

2000-03-20 15:14:45# 125. lþ. 82.1 fundur 388#B mannréttindabrot í Tsjetsjeníu# (óundirbúin fsp.), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 125. lþ.

[15:14]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir þessi svör en ég vil vekja athygli þingheims á orðfærinu sem við notum í tengslum við þetta mál.

Fyrir áramótin lýsti forseti Rússlands því yfir að gerðar yrðu árásir á Grosní og Tsjetsjeníu og engu yrði eirt. Í kjölfarið birtist hins vegar í fjölmiðlum á Vesturlöndum víða að Rússar kynnu að vera að mildast og nú tölum við um að þeir sýni lit. Staðreyndin er sú að það hefur verið farið með ofbeldi á hendur íbúum Grosní og saklaust fólk hefur verið hrakið frá heimilum sínum. Mér finnst ófært annað en hæstv. utanrrh. fyrir hönd íslensku þjóðarinnar komi á framfæri mótmælum okkar gegn þessum mannréttindabrotum beint og milliliðalaust.