Húsgöngu- og fjarsölusamningar

Þriðjudaginn 21. mars 2000, kl. 15:55:02 (5533)

2000-03-21 15:55:02# 125. lþ. 83.15 fundur 421. mál: #A húsgöngu- og fjarsölusamningar# (heildarlög) frv. 46/2000, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 125. lþ.

[15:55]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna þessu frv. sem felur í sér aukna neytendavernd en með því er verið að veita neytendum vernd með tilliti til fjarsölu á vöru og þjónustu. Það sem ég vildi sérstaklega taka upp í þessu stutta andsvari er 12. gr. þessa frv. um greiðslu með korti. Þar er talað um að fyrirtæki sem gefa út greiðslukort skuli setja skýrar reglur um það hvernig neytandi getur óskað eftir afturköllun á greiðslu hafi greiðslukort hans verið misnotað við gerð fjarsölusamnings og eins hvernig á að endurgreiða neytandanum vegna ólögmætrar misnotkunar á greiðslukorti hans. Það hefur komið fram í fjölmiðlum að misnotkun á greiðslukortum gegnum netverslun og almennt misnotkun á greiðslukortum sé að koma fram í ört vaxandi mæli. Nú veit ég að það hefur komið fram hjá greiðslukortafyrirtækjunum að þau eru að skoða hvernig hægt er að bregðast við þessari misnotkun. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra:

Hefur ráðherrann kynnt sér þessi mál sérstaklega?

Má eiga von á því að á þessu máli verði tekið fljótlega, vegna þess að ég held að það þurfi að hafa nokkuð hraðar hendur til þess að koma í veg fyrir þessa misnotkun?

Mér kemur það nokkuð spánskt fyrir sjónir og það eru fyrirtækin sjálf sem eiga að setja reglur um þetta. Ég hygg að þarna þurfi líka að koma til, að mínu viti, atbeini ráðuneytisins í þessu efni og að ráðuneytið ætti að koma að slíkum reglum og spyr ég hæstv. ráðherra um skoðun hennar á því og þá sérstaklega hvort hæstv. ráðherrann hafi kynnt sér þetta mál sérstaklega og skoðun hennar á því og hvort þess megi vænta að tekið verði á þessu máli fljótlega. Ástæða er til að taka þetta mál upp í tengslum við þetta frv.