Samkeppnislög

Þriðjudaginn 21. mars 2000, kl. 17:16:39 (5545)

2000-03-21 17:16:39# 125. lþ. 83.16 fundur 488. mál: #A samkeppnislög# (samstarf fyrirtækja, markaðsráðandi staða, samruni o.fl.) frv. 107/2000, viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 125. lþ.

[17:16]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst og fremst þakka þá góðu umræðu sem hér hefur farið fram um þetta mál. Mér virðast allar líkur á því að pólitísk samstaða geti skapast um málið. Ég tel mjög mikilvægt að frv. verði að lögum nú í vor en geri mér jafnframt grein fyrir því að búast má við að hv. efh.- og viðskn. leggi til einhverjar breytingar eins og gengur.

Ég ætla að fara nokkrum orðum um þær spurningar sem hér hafa komið fram. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir spurði um nefnd sem beiðni kom um frá Neytendasamtökunum að yrði skipuð til að kanna hvort í skjóli fákeppni hefði verið um óeðlilegar hækkanir að ræða á matvöruverði hér. Samkeppnisstofnun er að vinna í þessu máli og eftir því sem mér er best kunnugt þá hefur hún verið í sambandi við Neytendasamtökin. Ég vonast því til að út úr þeirri vinnu komi upplýsingar sem eru mjög í samræmi við það sem formaður Neytendasamtakanna fer fram á í erindi sínu.

Hv. þm. spurði út í skýrslubeiðni sem hefur áður komið til umfjöllunar á hv. Alþingi. Þar fóru hv. þm. Samfylkingarinnar fram á að unnin yrði skýrsla um stjórnunar- og eignatengsl í íslensku atvinnulífi. Því miður gat ég ekki orðið við því að lokið yrði við að vinna þá skýrslu á þessu þingi, þ.e. innan þeirra tímamarka sem þingsköp kveða á um. Í sjálfu sér er ekki svo mikið meira um það að segja. Mér þykir leitt að geta ekki gert eins og beðið er um í skýrslubeiðninni. Hins vegar verðum við að hafa það í huga að fjárveiting er ekki fyrir hendi og þar er um ansi mikla fjármuni að ræða. Ég virði að sjálfsögðu það viðhorf Samkeppnisstofnunar og forstjóra hennar að vilja ekki fara fram úr fjárlögum, enda hafa fallið hér stór orð um að það skuli ekki gert. Ég hef sagt að ég vil beita mér fyrir því að þessi vinna geti hafist á þessu ári. Það hefur ekkert breyst síðan ég fjallaði síðast um það mál á hv. Alþingi. Ég tel að svo verði.

Varðandi orð hv. þm. Jóns Bjarnasonar um greiðslukortastarfsemina þá er þess að geta að samkeppnislög ná til þeirrar starfsemi. Þess vegna tel ég að þar sé ekki um vandamál að ræða. Ég tek hins vegar undir margt af því sem fram kom í máli hans. Þegar hann talar um ,,okkur sem búum úti á landi`` þá vil ég láta þess getið að ég er ein af þeim sem búa úti á landi og þekki allvel til aðstæðna þar. Auðvitað er þar víða allt annar heimur í sambandi við viðskipti og vöruverð þó að kannski megi segja að svæðið þar sem ég bý sé nokkuð vel sett, a.m.k. hvað varðar matvöruverð.

Hæstv. forseti. Ég vil endurtaka þakkir mínar til hv. þingmanna fyrir góðar undirtektir sem ég met mjög mikils. Ég vonast til þess að frv. fái skjóta afgreiðslu á hv. Alþingi.