Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna

Þriðjudaginn 21. mars 2000, kl. 19:37:38 (5552)

2000-03-21 19:37:38# 125. lþ. 83.4 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, Frsm. 1. minni hluta SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 125. lþ.

[19:37]

Frsm. 1. minni hluta (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Ekki dreg ég það í efa að hæstv. ráðherra er búinn að fara í margar ferðirnar og hefur orðið þó nokkra nasasjón af því hvernig þessir hlutir ganga þarna fyrir sig. Vissulega er það svo að í sinni hráustu mynd snúast þessir hlutir um að vera með eða vera ekki með.

En svo þegar betur er að gáð er veruleikinn ekki alltaf svo einfaldur og eitt er víst og það er að menn ná ekki fram samningum um sérlausnir sem þeim hentar nema að reyna það, nema að tefla fram sérstöðu sinni og biðja um skilning á henni og fara fram á einhverjar lausnir sem taki tillit til þeirra sérstöku aðstæðna sem menn eru í. Hvernig hefur þetta gengið í Evrópusambandinu? Eru þetta svona hreinar línur þar, annaðhvort 100% með eða 100% ekki? Ó, ekki, aldeilis. Hvernig er þetta með Dani? Það er búið að klæðskerasauma hverja lausnina á fætur annarri til að henta Dönum í Edinborgarsamþykktunum með ýmiss konar undanþágum þeirra frá fyrri tíð vegna sumarbústaða o.s.frv. o.s.frv. Hvernig er með Breta og Íra? Þeir hafa sérstöðu í ýmsum þáttum Evrópusamstarfsins. Þeir eru ekki með í Schengen. Hvernig er með vini okkar, Grikki? Ekki nema lítill hluti af Evrópuréttinum er virkur gagnvart Grikkjum. Þeir eru á sérkjörum gagnvart Schengen enn sem komið er það best ég veit.

Í reynd er það þannig að einmitt Evrópusambandið með sínu volduga bírókratíi er þekkt út um allan heim fyrir lagni sína við að möndla fram alls konar sérlausnir og stoða- og grindarkerfi sem kennt er í flóknustu stjórnsýslufræðum í háskólum um víðan heim af því að engir hafa náð slíkri fullkomnun í skrifræði nema ef vera skyldi þeir sem héldu um taumana hjá faróunum í Egyptalandi en þar mun hafa verið nokkuð umfangsmikið byrokratí á einni tíð.

Þess vegna er það ekki þannig, herra forseti, að það liggi bara fyrir að kostir Íslands eða Noregs eða þess vegna hinna Norðurlandanna hafi í þessu dæmi í byrjun bara verið að vera með 100% eða ekki. Sagan sýnir annað.