Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna

Þriðjudaginn 21. mars 2000, kl. 19:47:07 (5557)

2000-03-21 19:47:07# 125. lþ. 83.4 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 125. lþ.

[19:47]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. er að snúa út úr orðum mínum og hann verður að eiga það við sjálfan sig. Ákveðnar kostnaðartölur liggja fyrir í þessu máli og þær hafa verið reiddar fram. Ég var einfaldlega að segja að ég hefði vissar efasemdir um að hægt sé að reikna viðbótarkostnaðinn í flugstöðinni með því að segja: fjárfestingarkostnaðurinn er á bilinu 500--900 milljónir. (ÖJ: Fyrsti áfanginn.)

En ég bið hv. þm. að hugsa líka um það hvort einhver kostnaður er af því að standa utan við þetta. Og sá kostnaður er mikill að mínu mati og sá kostnaður er mun meiri en kostnaðurinn við það sem við þurfum að leggja í þetta. Það er mat mitt á málinu. Það er m.a. ástæðan fyrir því að ég tek afstöðu með því að við gerum þetta.

Hann segir að þjóðin muni ekki skilja það. Ég held að þjóðin skilji það alveg. (ÖJ: Muni ekki virða það.) Muni ekki virða það. Nú, ég vænti þess að það sé virt við mig að ég segi skoðun mína í málinu. Og ég vænti þess að það sé virt við mig að ég segi mitt mat á málinu og hvert er mat mitt á því hvað er íslensku þjóðinni fyrir bestu til lengri tíma litið. Ég tel að það sé ástæðan fyrir því að ég er kjörinn til setu hér á Alþingi og hafi þær skyldur við þjóðina að segja mína skoðun á því og standa við það og standa að málum með þeim hætti. Það er það sem ég er að gera.

Ég er ekki í nokkrum vafa um að þetta reynist íslensku þjóðinni hagstætt og það er ábyrgðarhlutur að standa gegn því. Það mun koma í ljós, hv. þm., þótt síðar verði. Og þá ætla ég og ég veit að ég mun verða stoltur af því síðar meir að hafa staðið að þessu. Ég vænti þess að hv. þm. verði stoltur af því að hafa verið á móti því. En ég hef miklar efasemdir um það.