Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna

Þriðjudaginn 21. mars 2000, kl. 22:09:07 (5581)

2000-03-21 22:09:07# 125. lþ. 83.4 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, Frsm. 1. minni hluta SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 125. lþ.

[22:09]

Frsm. 1. minni hluta utanrmn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Það orkar kannski tvímælis að fara í andsvar þegar hv. þm. Sighvatur Björgvinsson er kominn í útúrsnúningastílinn og að leggja þannig út af orðum mínum að ég hafi fyrst og fremst áhyggjur af því ef til þeirra óskapa kæmi að einhverjar flugvélar frá útlöndum lentu á flugvöllum úti á landi. Hann snýr hlutunum svo rækilega á haus sem hugsast getur því að ræða mín var einmitt sú að ég hef lengi verið baráttumaður fyrir því að reyna að fá fram breytt munstur í ferðaþjónustu og aðkomu farþega að landinu. Ég þykist þekkja nægjanlega vel til þessara mála til þess að vita að núverandi fyrirkomulag er landsbyggðinni mjög óhagstætt af ýmsum ástæðum. Þó ekki kæmi annað til en að ferðamenn, samkvæmt könnunum, eyða drjúgum hluta af farareyri sínum á fyrstu tveim til þremur sólarhringum ferðalags þar sem þeir stoppa í landi, það sýna allar kannanir, þá nægir það eitt og sér til þess að sýna að það er nú ekki kannski eftir miklu að slægjast þó að þeir fari eitthvað út á land hafandi eytt á fyrstu sólarhringunum á innkomustaðnum stórum hluta peninga sinna. Það liggur ósköp einfaldlega, herra forseti, fyrir í gögnum þessa máls og hv. þm. ætti kannski að fara í möppur sínar í utanrmn. því það hefur hent að hv. þm. hafi vantað á einn og einn fund, og fara í gegnum gögnin sem liggja þar. Þar eru m.a. úttektir annars vegar ríkislögreglustjóra og hins vegar aðila eins og Flugmálastjórnar og Siglingastofnunar og svo minnisblað frá flugmálastjóra að síðustu til okkar í utanrmn. um það sem þurfi að gera, eða sé í undirbúningi, varðandi hafnir og flugvelli í landinu. Það er mikill misskilningur að reyna svo að koma hér og segja að það eigi ekki við og það sé ekki innan dagskrármálsins að ræða um þessa stöðu í heild sinni fyrir landið, eins og þetta komi Keflavík bara við. Það er ákaflega kurteislegt orðalag, held ég, um innlegg hv. þm. Sighvats Björgvinssonar, ef innlegg skyldi kalla, að kalla það misskilning.