Uppbygging vega á jaðarsvæðum

Miðvikudaginn 22. mars 2000, kl. 14:26:43 (5630)

2000-03-22 14:26:43# 125. lþ. 85.2 fundur 423. mál: #A uppbygging vega á jaðarsvæðum# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 125. lþ.

[14:26]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Vegna fsp. hv. þm. vil ég gefa svohljóðandi svar:

Síðasta haust kom út hjá Byggðastofnun skýrsla sem í aðalatriðum fjallar um styrkleika byggðarlaga, atvinnuþróun í jaðarbyggðum og nýjar áherslur í byggðamálum. Meðal annars sem þar kemur fram er mikilvægi góðra samgangna á jaðarsvæðum þar sem búsetuástand er verst.

Að frumkvæði Byggðastofnunar fóru fram viðræður á milli hennar og Vegagerðarinnar um hvernig væri hægt að ná markmiðum ályktunarinnar, þ.e. ályktunar Alþingis um stefnu í byggðamálum 1999--2001, en þar segir:

,,Gert verði átak í uppbyggingu vega í þeim landshlutum þar sem samgöngur eru ófullnægjandi (jaðarsvæði) svo að þær verði í samræmi við nútímaþarfir.``

Í viðræðum kom fram af hálfu Byggðastofnunar að aðaláherslan skyldi lögð á vegagerð á svæðum þar sem ástand í búsetu er verst, það sem nefnt er atvinnuþróunarsvæði I í skýrslu Byggðastofnunar. Einnig skyldi reikna með að áætlun um vegi þessa, sem nefndir hafa verið jaðarbyggðavegir, lúti ákvæðum vegalaga og verði fjallað um áætlunina innan ramma vegáætlunar með sama hætti og um aðrar vegaframkvæmdir, enn fremur að byggðavegir verði sérstakur liður í vegaáætlun.

Vegagerðin hefur gert lauslegt mat á þessu vegakerfi í samræmi við svæðaskiptingu Byggðastofnunar og metið kostnað við nauðsynlegar endurbætur þess. Umræddir vegir eru á atvinnuþróunarsvæðum í flokki I eða til tengingar slíkra svæða og eru innan sex kjördæma, þ.e. annarra en Reykjaness og Reykjavíkur. Ekki voru teknir með þeir vegir sem fjármagnaðir eru af stórverkefnafé í langtímaáætlun.

Kostnaður við endurbætur á því vegakerfi sem hér um ræðir, sem þar var dregið upp, er metinn á 6 milljarða kr. Í gildandi vegáætlun eru fjárveitingar um 150 millj. kr. til umræddra vega. Með hliðsjón af þeim heildarkostnaði sem áður var nefndur, 6 milljarðar kr., er ljóst að hér er um langtímaverkefni að ræða. Málið er nú til skoðunar í ráðuneytinu. Niðurstaðna er að vænta í tengslum við afgreiðslu vegáætlunar.

Ég nefndi áðan að ekki væru teknir með þeir vegir sem fjármagnaðir eru af stórverkefnafé í langtímaáætlun. Meðal þeirra er að finna ýmsa stofnvegi sem tengja jaðarsvæði, þ.e. atvinnuþróunarsvæði I, við meginvegakerfi landsins. Eru þeir í raun enn mikilvægari fyrir svæðin en vegirnir á svæðinu. Því kemur að mínu mati vel til greina að lána eða færa jaðarbyggðafé verði það skilgreint til að flýta fyrir framkvæmdum á slíkum stofnvegum sem mikilvægastir teljast frá byggðasjónarmiði, og yrðu þeir fjármunir síðan að koma inn á vegáætlun þegar um það væri ákveðið nánar.

Herra forseti. Þetta er það svar sem ég get á þessu stigi gefið hv. þm. og þingheimi en vísa að sjálfsögðu til þeirrar vinnu sem fram fer í samgn. þingsins í tengslum við gerð vegáætlunar.