Uppbygging vega á jaðarsvæðum

Miðvikudaginn 22. mars 2000, kl. 14:36:37 (5635)

2000-03-22 14:36:37# 125. lþ. 85.2 fundur 423. mál: #A uppbygging vega á jaðarsvæðum# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 125. lþ.

[14:36]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Nú þarf átak, segja margir hv. þingmenn. Öllum er ljóst að víða þarf stórt tak, jafnvel átak í samgöngumálum (ÖS: Grettistak.) og jafnvel grettistak, eins og ég veit að hv. þm. Össur Skarphéðinsson sem hér situr, vill að lyft verði á öðrum vettvangi.

En ég hlýt að vekja athygli á því að fjármunirnir ráða ferðinni. Við leggjum nokkuð meiri fjármuni í vegagerðina og í vegaframkvæmdir á næstu árum samkvæmt þeirri vegáætlun sem hér liggur fyrir þinginu en áður hefur verið. Þeir fjármunir koma úr ríkissjóði sem hefur í mörg horn að líta.

Vegna þess sem hv. þm. og fyrirspyrjandi, Kristján Möller, sagði um að meira fé þyrfti þá gætum við staðið frammi fyrir þeim valkosti, t.d. á næstu fjórum árum, að setja 6 milljarða í þessa fáförnu vegi og sleppa jarðgöngum. Við getum ekki bæði sleppt og haldið. Í þessu felst vandi minn sem samgrh. Ég verð að gera tillögur um eins arðbærar framkvæmdir og kostur er sem komi samt sem áður til móts við þau byggðasjónarmið sem við viljum halda í heiðri.

Svo ég endurtaki það þá er úr vöndu að ráða og við reynum auðvitað allt hvað af tekur að bæta þessa vegi eins og fram kom hjá hv. þm. Drífu Hjartardóttur að nauðsynlegt er að gera. Við þurfum sérstaklega að líta til tengivega vegna skólaaksturs. Það er alveg ljóst. Að því er unnið og til þess stendur minn vilji.