Kostnaður við fjarkennslu

Miðvikudaginn 22. mars 2000, kl. 14:43:49 (5638)

2000-03-22 14:43:49# 125. lþ. 85.3 fundur 424. mál: #A kostnaður við fjarkennslu# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 125. lþ.

[14:43]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Mér finnst það sem hér kom fram í máli hæstv. ráðherra mjög mikilvægt, þ.e. að reglurnar geri ráð fyrir sömu greiðslu fyrir þá kennslu sem nemandinn nýtur með fjarkennslu og gagnvart annarri kennslu, sem þýðir væntanlega að nemendur eiga ekki að greiða fyrir kennslu í framhaldsskólum þó að fjarkennsluáfangi sé keyptur svo þeir geti stundað nám sitt. Ég held að þetta sé mjög mikilvægt, herra forseti, og einnig að menn skoði nákvæmlega hvert þeir stefna í þessum efnum.

Eitt af markmiðum stjórnvalda er einnig að auka aðgang að framhaldsskólanámi með fjarkennslu og nýta þannig upplýsingatæknina til að brjóta niður hömlur vegna staðbundinnar einangrunar. Þannig væri hægt að ná til nemenda hvar sem þeir eru. Þá er auðvitað mjög mikilvægt að ljóst sé hver á að greiða fyrir nám sem fram fer með slíkum hætti. Eins og ég sagði áðan ættu möguleikar þessarar nýju tækni til jöfnunar á aðgengi til náms ekki að verða til þess að búa til nýja mismunun, þ.e. mismunun sem byggist á fjárhag nemenda.