Heilbrigðisþjónusta við unga afbrotamenn

Miðvikudaginn 22. mars 2000, kl. 15:08:03 (5648)

2000-03-22 15:08:03# 125. lþ. 85.7 fundur 433. mál: #A heilbrigðisþjónusta við unga afbrotamenn# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 125. lþ.

[15:08]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Í þeirri skýrslu sem skilað var til hæstv. dómsmrh. fyrir um tæpu ári er auðvitað tæpt á mörgum málum sem tengjast ungum afbrotamönnum og meðferð mála þeirra. Eitt af þeim eru heilbrigðismálin þar sem komið hefur í ljós að ekki er um það að ræða að heilbrigðisþjónusta við unga fanga sé sérstaklega skilgreind, þ.e. þeirra sem eru vistaðir í fangelsum landsins eða öðrum stofnunum, sérstaklega í fangelsunum. Um þá gilda ekkert aðrar reglur um meðferð eða þá heilbrigðisþjónustu sem þeir eiga að fá en aðra fanga eða þá fanga sem eldri eru.

Einnig var komið inn á þetta atriði í skýrslu umboðsmanns barna sem skilað var til þáv. dómsmrh. í júlí 1998, þar sem rakin eru hvaða áhrif það getur haft á unga fanga að vera samvistum við eldri fanga og vera vistaðir þar og að þeir þurfi að eiga kost á því að leita sérfræðiþjónustu. En þar segir sérstaklega um þetta, með leyfi forseta:

,,Samkvæmt 5. tölulið 2. gr. laga nr. 48/1988, sbr. lög nr. 123/1997 skal Fangelsismálastofnun sjá til þess að í fangelsum sé veitt sérhæfð þjónusta, svo sem heilbrigðisþjónusta og þjónusta prests. Mér þykir einsýnt`` --- segir umboðsmaður barna --- ,,að telja verði sálfræðiþjónustu til sérhæfðrar þjónustu samkvæmt þessu ákvæði. Afar mikilvægt er að ungir fangar fái notið slíkrar þjónustu, ekki aðeins í bráðatilfellum, heldur að staðaldri með það að markmiði að aðstoða þá við að takast á við sára andlega vanlíðan sem óhjákvæmilega fylgir fangavist. Í heimsókn minni á Litla-Hraun kom fram að til stæði að ráða sálfræðing til starfa við fangelsið, en enn hefði ekki verið gengið frá ráðningu hans. Sem umboðsmaður barna mælist ég eindregið til þess að föngum, yngri en 18 ára, verði þegar í stað tryggð fullnægjandi sálfræðiþjónusta, sem þeir eiga skýlausan rétt á. Skoðun mín er jafnframt sú að barnaverndarnefndir sveitarfélaga og/eða starfsmenn þeirra hafi og ríkum skyldum að gegna gagnvart þessum ungmennum, sem hafa villst af leið. Þeim ber að fylgjast með líðan og aðbúnaði þessara ungmenna sem eru í fangavist og ekki síður að aðstoða þau við takast á við lífið að henni lokinni.``

Einnig kemur fram í skýrslunni sem nefnd dómsmrh. skilaði að nefndin leggi til að kannaðir verði möguleikar á að heilbr.- og trmrn. og Barnaverndarstofa geri samning um þjónustu við skjólstæðinga Barnaverndarstofu hliðstæðan þeim sem gerður hefur verið við Fangelsismálastofnun vegna heilbrigðisþjónustu við fanga, og það eigi þá við samning sem gerður er vegna sérhæfðrar þjónustu í fangelsum. Og því spyr ég hæstv. ráðherra:

Hefur ráðherra beitt sér fyrir því að heilbrigðisþjónusta við unga afbrotamenn verði skilgreind sérstaklega og að komið verði á reglubundinni samvinnu allra stofnana sem sjá um heilbrigðisþjónustu við unga afbrotamenn í samræmi við niðurstöður í skýrslu nefndar dómsmálaráðherra um málefni ungra afbrotamanna frá 4. maí 1999?