Flugsamgöngur við landsbyggðina

Miðvikudaginn 22. mars 2000, kl. 15:42:57 (5658)

2000-03-22 15:42:57# 125. lþ. 85.94 fundur 404#B flugsamgöngur við landsbyggðina# (umræður utan dagskrár), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 125. lþ.

[15:42]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Það eru mjög alvarlegar fréttir að Íslandsflug ætli að hætta flugi til Siglufjarðar. Flugið hefur verið mikilvægur þáttur í samgöngum við Siglufjörð. Væru göngin um Héðinsfjörð hins vegar komin, væri þetta ekki svo alvarlegt en það er þau því miður ekki enn þá.

Íslandsflug hefur þjónað Sauðárkróki og Siglufirði ágætlega að undanförnu. Ég tel að leita verði allra leiða til að flugsamgöngum verði haldið uppi við Siglufjörð þar til vegasamgöngur við Akureyri eru orðnar viðunandi, þ.e. jarðgöng komin. Þess er vonandi ekki mjög langt að bíða. En ég legg áherslu á að óviðunandi er að ekki sé haldið uppi flugi til Siglufjarðar þangað til.