Flugsamgöngur við landsbyggðina

Miðvikudaginn 22. mars 2000, kl. 16:01:18 (5667)

2000-03-22 16:01:18# 125. lþ. 85.94 fundur 404#B flugsamgöngur við landsbyggðina# (umræður utan dagskrár), Flm. KLM
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 125. lþ.

[16:01]

Kristján L. Möller:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur verið um þetta mjög alvarlega mál sem ég vildi fara með í utandagskrárumræðu á hv. Alþingi.

Það er rétt sem hæstv. samgrh. sagði að upp hafa komið vandamál. Ég tel það meira en nokkur vandamál. Þetta eru stór vandamál sem eru að koma upp þegar við sjáum að öll samkeppni er að líða undir lok og að eftir stendur kannski eitt flugfélag á Íslandi sem mun sinna flugi. Það er miklu meira en nokkur vandamál.

Mér finnst því miður að ekki hafi komið nógu skýrt fram hjá hæstv. samgrh. hver vilji ríkisstjórnarinnar er í þessu efni. Ég vil því nota tækifærið og spyrja hvort þetta mál hafi verið rætt í hæstv. ríkisstjórn og hvort bregðast eigi við því eða á bara að láta allt danka og leggja niður flug á þessu ári og skoða eitthvað á næsta ári? Það verður erfiðara að hefja flug eftir að það hefur algerlega stoppað.

Hér kom fram hvað styrkir eru háir til flugsamgangna á Íslandi, en þeir eru tæpar 10 millj. Í svari hæstv. samgrh. til hv. þm. Jóhanns Ársælssonar, sem dreift hefur verið í dag, kemur fram að fyrirtækið Kynnisferðir, sem er 80% í eigu Flugleiða, fékk tæpar 6 millj. í styrk á síðasta ári en það fyrirtæki skilaði 45 millj. kr. hagnaði ef upplýsingar mínar eru réttar. Við sjáum því um hvaða tölur er verið að ræða í þessu efni. Kynnisferðir eru með áætlunarferðir frá Reykjavík til Keflavíkur og kynnisferðir um Suðurland. Þetta er því stórmál.

Hér er ég með mikinn doðrant sem er útboð norska ríkisins á flugi til landsbyggðarinnar þar og ég held að þetta séu hlutir sem við getum tekið okkur til eftirbreytni og ættum að skoða. Ég vil því bara rétt í lokin, um leið og ég þakka hæstv. samgrh. fyrir þau svör sem hann hefur gefið og þeim hv. þingmönnum sem tóku þátt í umræðunni, enn á ný spyrja eftir því hvort ríkisstjórnin sé með einhverjar áætlanir uppi um að bregðast við þessum vanda nú þegar. Ég tel að það sé of seint að bregðast við vandanum á næsta ári eða þegar ný fjárlög hafa verið gerð.