Stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 13:30:25 (5711)

2000-03-23 13:30:25# 125. lþ. 86.3 fundur 502. mál: #A stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar# frv. 76/2000, GÁS
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[13:30]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Við ræðum hér veigamikið og stórt mál, framtíðarskipan á eignarhaldi og rekstri Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Þar eru engin smámál á ferð ef litið er til þeirra fjárhagslegu hagsmuna sem í húfi eru, þess fjölda Íslendinga sem hafa starfað og munu starfa þar syðra. Málið er einnig stórt sé litið til rekstursins í ljósi þeirra sóknarfæra sem við viljum nýta í ferðamannaiðnaði og þess mikilvæga hlutverks sem flugstöðin gegnir í að tengja Íslendinga við útlönd. Formbreyting sú sem hér er gerð tillaga um hefur þannig á sér margar hliðar.

Ég vil taka fram, herra forseti, strax í upphafi að ég tel sjálfsagt og eðlilegt að horfa algerlega fordómalaust á þá tillögu sem hér um ræðir. Ég vil á engan hátt útiloka að eftir vandlega yfirlegu og skoðun kunni það að vera skynsamlegt að fara þessa leið.

Engu að síður tel ég þarna ákveðin álitaefni sem brýnt er að ræða hispurslaust áður en ákvörðun verður tekin. Það er kannski ekki jafnsjálfgefið að stíga þetta skref og menn telja í fljótu bragði. Þess vegna kann að vera að ræða mín kunni að virka niðurdrepandi og niðurrífandi fyrir hæstv. utanrrh. Þá verður svo að vera því öðruvísi nálgumst við ekki kjarna málsins en að benda á kosti og galla frv. sem hér um ræðir. Það er rétt að undirstrika að menn eru ekki að ræða þetta mál í formi þáltill. eða lauslegra áforma, hér er verið að niðurnjörva hvernig rekstrarumhverfi og rekstrarform þessa stóra íslenska ríkisfyrirtækis á að vera í framtíðinni.

Ég vil hins vegar segja að ég kann að meta þá hreinskilni hæstv. ráðherra þegar spurt er, sem eðlilegt er að gert sé, hvernig hann sjái síðan næsta skref í þessu sambandi. Hann hefur sagt, umfram það sem ýmsir aðrir hæstv. ráðherrar hafa gert á liðnum árum, að hann vilji ekki útiloka að á síðari tímum gæti til þess komið að selja þetta hlutafélag eða einhverja tiltekna þætti úr því. Mér finnst gott hjá honum að segja það. Ég minni á fyrri umræður við svipaðar kringumstæður varðandi Póst og síma o.s.frv. --- tína mætti til fleiri tilvik sem hægt er að vísa til. Þar þorðu menn ekki að horfast í augu við þetta og þá reyndu menn, t.d. þáv. hæstv. samgrh., að draga dul á þetta og halda hinu gagnstæða fram, þ.e. sögðu eitt en meintu annað, þannig ég haldi því til haga.

Það er hins vegar engin tilviljun, án þess að ég ætli að blanda mér í orðaskipti hæstv. ráðherra við hv. þm. Ögmund Jónasson, að hið háa Alþingi og fjöldi þingmanna staldri við þegar að svokallaðri hlutafélagavæðingu kemur, jafnvel þeir hv. þm. sem telja að hlutafélagaformið skapi aukinn hreyfanleika og ákveðinn sveigjanleika sem ekki sé til staðar í hefðbundnum ríkisrekstri. En þegar kemur að samskiptum framkvæmdarvalds og þings þá verður á því alger eðlisbreyting. Ekki stigbreyting, heldur eðlisbreyting.

Þingmenn hafa ítrekað lent í því, þegar þeir hafa viljað afla upplýsinga um framgang mála í einstökum hlutafélögum, að hæstv. ráðherrar sem haft hafa forræði þeirra hlutafélaga hafi einfaldlega sagt: Ykkur kemur þetta ekki við. Hlutafélagalögin eru þannig samansett að við megum ekki veita ykkur þessar upplýsingar. Þingsköpin taka heldur ekki af öll tvímæli um að þið hafið neinn rétt á að spyrja okkur um gang mála í þessum tilteknu hlutafélögum. Fyrir tveimur árum lét hæstv. forsrh. tiltekinn sérfræðing sinn, lagaprófessor, taka saman álitsgerð í þessa veru. Sá hinn sami komst að þeirri niðurstöðu að hlutafélög í eigu ríkissjóðs, jafnvel þó þau séu 100% í eigu ríkissjóðs, lúti ekki hinni almennu skilgreiningu um opinber málefni. Af því var dregin sú ályktun að þar með ættu þingmenn engan umframrétt yfir almenn upplýsingalög þegar kæmi að óskum um upplýsingar um gang mála í þessum fyrirtækjum.

Þetta er auðvitað mjög mikilvægur þáttur. En auðvitað getum við bætt úr þessum samskiptaörðugleikum með því að hnykkja á þingsköpum og raunar, til þess að halda öllu til haga, einnig hlutafélagalögum í þá veruna að algjörlega kýrskýrt sé að eigi ríkið 50% eða meira í fyrirtæki þá sé það opinbert og lúti skilgreiningu á opinberum málefnum. Þar með væri hæstv. ráðherrum hverju sinni gert að upplýsa þingmenn í samræmi við það sem venja er þegar ríkisfyrirtæki eiga í hlut.

Þetta þykir ekki stór þáttur í þessu máli en er auðvitað undirliggjandi faktor sem við skulum ekki gera lítið úr. Þess vegna vakna auðvitað margir upp og segja sem svo: Er þetta enn ein leiðin hjá ríkisstjórninni, í þessu tilfelli hæstv. utanrrh., til að skáskjóta þessu stóra fyrirtæki, þessu milljarðafyrirtæki, þessu fyrirtæki sem telur hundruð starfsmanna, fram hjá eftirliti Alþingis og aðhaldi stjórnarandstöðunnar og geta haft þetta í friði fyrir sig og sína? Þannig hefur það því miður birst í samskiptum þings og framkvæmdarvalds þegar hlutafélagavæðing hefur átt sér stað. Landssíminn er auðvitað hrópandi dæmi um þetta. Það er í því ljósi sem menn hika eilítið og segja: Er það alveg sjálfgefið að mál gangi fram með þessum hætti?

Lítum örlítið á hina efnislegu umgjörð málsins að öðru leyti. Aflvaki hlutafélagavæðingar ríkisfyrirtækja hefur fyrst og síðast verið sá að talið er að það eigi ekki við að ríkið sé í samkeppni á tilteknum sviðum markaðarins. Það var vísað til þess í Landsbankamálinu og það er einnig notað sem rök hér. Mér finnast það vissulega rök þegar menn ræða mál af þessum toga. Á hinn bóginn má spyrja: Við hvern er Leifsstöð í samkeppni? Nú er samkeppni þessara flugstöðva með ýmsum hætti. Leifsstöð er aðallega í samkeppni við erlendar flugstöðvar. Fyrst og síðast er Leifsstöð í samkeppni um farþega frá útlöndum og reynir að laða að sér nýja flugrekstraraðila, einnig frá útlöndum. Um erlend samskipti, í þess orðs fyllstu merkingu, er ekki að ræða í þessum geira. Því miður kannski. Sökum smæðar okkar og stöðu sé ég það ekki fyrir að Leifsstöð sem miðstöð okkar í flugsamgöngum við útlönd muni eiga í beinum samskiptum af þessum toga. Samkeppnin hefur auðvitað birst í Leifsstöðinni inná við. Þar er í raun ekki verið að breyta neinu með þessari formbreytingu. Eftir sem áður verður það hlutafélag sem um ræðir 100% í eigu ríkissjóðs og á forræði ráðherrans.

Raunar mætti segja, herra forseti, að Flugstöð Leifs Eiríkssonar hafi í raun verið ígildi hlutafélags fram að þessu. Utanríkisráðherrar hafa hverju sinni nánast getað gert það sem þeim hefur dottið í hug þar syðra, og stundum án þess að spyrja kóng eða prest. Þeir hafa að vísu haft ráðgefandi apparöt og stjórnir yfir tilteknum þáttum í gegnum tíðina og stundum hafa þeir notað þessar ráðgefandi stjórnir og ráð sem skálkaskjól fyrir óvinsælum ákvörðunum og vísað til ráðgjafar þeirra. Öll umgjörð þessa hefur eins og við þekkjum verið í hlutafélögum. Hið stóra stökk sem yrði með þessari formbreytingu er því ekki alveg fyrirséð.

Það væri fróðlegt að heyra frá hæstv. ráðherra hvar þessi eðlisbreyting verður með þeirri formbreytingu sem hér ætti sér stað. Ég sé hana ekki í fljótu bragði. Þarna hefur verið ígildi stjórnar yfir þessu fyrirtæki, undir forræði ráðherra. Hið eina sem gerist er að háeffið bætist við. Ég velti því þar af leiðandi eilítið fyrir mér hvaða raunbreyting mundi eiga sér stað. Hún verður auðvitað talsverð gagnvart starfsmönnum, þ.e. gagnvart þeim sem eru ríkisstarfsmenn, einkum og sér í lagi í fríhöfninni, sem hefur eins og hér hefur réttilega verið sagt, verið gullkista þessarar stöðvar.

Í því samhengi er líka rétt að lýsa yfir vonbrigðum með það, þó ég hafi að vísu hlýtt á skýringar ráðherra þar um, að enn og aftur birtast starfsmönnum ríkisfyrirtækja áform um hlutafélagavæðingu í gegnum fjölmiðla. Ég hef samúð með stöðu ráðherra í þessum efnum. Það er ekkert áhlaupaverk í þessu opna samfélagi okkar að gera þetta þannig að starfsmenn heyri um slíkt fyrstir allra. Þarna tókst honum það ekki og það er slæmt. Ég held, með fullri virðingu fyrir utanrmn., ráðuneytunum og ríkisstjórninni, að það takist nú ekki að halda slíkan trúnað gagnvart fjölmiðlum marga daga hafi ráðherrann ætlað sér það. Auðvitað átti hann að vera búinn að merkja í dagbók sína fund með starfsmönnum strax eftir fund utanrmn. Að vísu var hann á öðrum fundi þennan mánudag.

Af þessu verða menn að læra. Þetta skapar auðvitað tortryggni, stundum ástæðulausa en engu að síður eðlilega. Mér nægir hins vegar ekki, af því ég hef dálitla reynslu af því og við höfum það líka af þessari hlutafélagavæðingu, að hagur starfsmanna sé ævinlega og alltaf tryggður. Það hafa gengið mál í þessa veru og oftar en ekki hafa nú starfsmenn og starfsmannafélög viðkomandi aðila unnið þau mál. Reynslan hér í húsinu handan við okkur hefur hins vegar verið sú að það hefur snarfækkað á gólfinu en fjölgað, eins og menn þekkja, stórkostlega á efri hæðum. Ég læt mér ekki koma annað til hugar en sama þróun verði þar syðra. Það þekkja menn erlendis frá og sama þróun hefur átt sér stað hér heima. Fólkið á gólfinu óttast því eðlilega mest slíkar breytingar. Ég hins vegar treysti því að menn muni nota þennan tíma og það ráðrúm sem gefst við umfjöllun þessa máls til að tryggja að framkvæmdin verði skynsamleg, verði þetta að veruleika.

Herra forseti. Nú er það þannig að Leifsstöð og byggingarframkvæmdir frá 1983--1987 hafa legið óbættar hjá garði. Það hefur að mjög litlu leyti verið reynt að borga niður þær fjárfestingar sem þáv. stjórn helmingaskiptaflokkanna, Framsfl. og Sjálfstfl., réðust í á þessum árum. Þeir ætluðu nú öllu að týna á lokasprettinum til að ljúka því fyrir kosningarnar 1987 og misstu algjörlega peningatökin á þeirri framkvæmd, voru að teikna flugstöðina á sama tíma og hún var byggð. Þeir sem komið hafa nærri slíku vita að slíkt er óráð og við höfum ekki enn bitið úr nálinni með það.

Ástæðan fyrir því að við skuldum enn þá í kringum 5 milljarða kr. í þessari flugstöð sem er að verðmæti einhverjir 5 milljarðar --- þannig að hreinn eignarhluti ríkisins er enginn í flugstöðinni þar syðra --- er auðvitað sú að við höfum notað hagnaðinn af fríhöfninni sem skilað hefur stórum fjárhæðum í tekjur. Ríkissjóður hefur hirt þessa fjármuni að langmestu leyti. Ég er ekki að segja flugstöðin hafi ekki staðið undir sér fram að þessu. Við skulum horfa á veruleikann eins og hann er. Eignarhlutur ríkisins, ef við getum sagt sem svo, er enginn í þessari stöð. Nú erum við að ráðast í framkvæmdir, enn og aftur í tímahraki, sem á að ljúka fyrir 1. mars að ári, eða hvort það er 1. apríl.

Það er rétt um ár þar til taka á stækkunina í notkun að verulegu leyti. Framkvæmdir eru byrjaðar og þó enn sé verið að teikna. Ég er satt að segja viðbúinn hinu versta en vona hið besta þegar kemur að fjármálalegu uppgjöri á þeim framkvæmdum sem þar eiga sér nú stað. Þær eru ekki nein smásmíði og munu samkvæmt upplýsingum nema í kringum 4 milljörðum kr. Ég vona svo sannarlega að menn geti haldið sig innan þeirra áætlana þó að ég endurtaki að ég sjái það ekki alveg fyrir og mundi ekki leggja mikið undir í þeim efnum.

[13:45]

Herra forseti. Þetta er hin stóra umgjörð þess nýja hlutafélags sem þarna á að taka við. Og það er eftirtektarvert í því samhengi þegar umsögn fjmrn. í þessa veru er skoðuð og raunar líka inngangserindi hæstv. ráðherra þar sem hann taldi það mjög mikilvægt að nú væri þessi 8 eða 9 milljarða skuld á flugstöðinni, sem til verður orðin eftir að næstu lotu verður lokið, ekki færð í ríkisreikning --- nú vildi ég gjarnan að hæstv. ráðherra legði við hlustir --- að mjög mikilvægt væri að þessar tölur fyrirfyndust ekki í ríkisreikningi heldur væru skuld hins nýja hlutafélags.

Ég gef, herra forseti, ekki mikið fyrir þetta. Ég gef ekki mikið fyrir svona feluleik út af fyrir sig. Það verður eftir sem áður á ábyrgð ríkissjóðs að greiða þetta hvort heldur það verður hlutafélag í eigu þess eða undirstofnun eins og við þekkjum. Mér finnst þetta ekki rök í sjálfu sér. Það er hins vegar eftirtektarvert í umsögn fjmrn. að þar er sagt berum orðum að nettótekjur ríkissjóðs muni lækka um 140 millj. á ári á tímabilinu en tæplega 200 millj. á fyrsta ári. Ég gef mér hins vegar, og ég bið þá hæstv. utanrrh. að leiðrétta mig, að þessi lækkun verði m.a. til orðin vegna þess að hlutafélagið sjálft eigi að standa skil á gjaldföllnum skuldbindingum vegna hvers árs, þ.e. það eigi að borga afborganir og vexti og hlutafélagið eigi að gera það. Þannig að lækkunin á tekjunum sé ekki eingöngu vegna þess að nýja hlutafélagið taki yfir lífeyrisskuldbindingar heldur líka vegna þess að þeir ætla að borga þær skuldir eitthvað niður sem eru áhvílandi.

Það verður hins vegar ekkert séð af þessu yfirlitsblaði fjmrn. og menn þurfa aðeins að vinda sér í gegnum fylgiskjöl með frv. sem eru um margt ágæt en að því leyti til gölluð að þau segja okkur ekki stöðuna eins og hún er í dag. Mér hefði þótt fróðlegt og ég hvet til þess og óska raunar eftir því að í umfjöllun utanrmn. fái menn yfirlit um þróun fjármála allt frá 1987 að stöðin var tekin í gagnið og menn átti sig algjörlega á því hver er staðan í dag áður en menn ætla að renna inn í þetta nýja fyrirkomulag. Hér er töfluverk sem sýnir hvernig þróun mála mun verða í framtíðinni en lítið um núverandi ástand. Við erum í miðjum byggingarframkvæmdum --- gleymum því ekki. Það er því mjög brýnt að við áttum okkur á stöðunni fyrir byggingarframkvæmdir og síðan eftir þær en það er hér hins vegar nákvæmlega listað.

Því er, herra forseti, nauðsynlegt að hæstv. ráðherra geri okkur eilítið gleggri grein fyrir hver hin fjárhagslega staða þessa hlutafélags er eftir stækkun og miðað við núverandi ástand. Þetta mun væntanlega leiða til þess að gullkistan, Fríhöfnin, mun auðvitað skila öllu sínu til þessa hlutafélags, hún mun verða hluti af því, en að tök og tækifæri ríkissjóðs til að seilast með krumluna í þessa stóru tekjupósta munu verða hverfandi, nema ríkissjóður fari hina gömlu leið og hækki arðsemiskröfu og nái peningunum þannig. Það er því ekkert gefið í þessu.

Herra forseti. Það væri líka fróðlegt í þessu samhengi, af því að vísað hefur verið til þess, hvernig þessu er háttað í nágrannalöndum okkar, og það er með ýmsu móti, ég þekki það. Sumir hafa gengið býsna langt í einkavæðingarátt, aðrir hafa ekki tekið hænufet í þá veru. Auðvitað veltir maður því fyrir sér og skoðar í þessu ljósi, því að hæstv. ráðherra hefur verið ærlegur með það að hann segist ekki vilja útiloka sölu síðar meir, hvort það sé mjög fýsilegur kostur til að mynda ef stærsti aðilinn í ferðaþjónustu á Íslandi, Flugleiðir, ætti 50--60% í einu millilandaflughöfn á Íslandi. Er það eitthvað sem við gætum séð fyrir okkur? Nei, auðvitað ekki. En má ekki ætla að einmitt þetta stóra fyrirtæki yrði fyrst allra til þess að sækjast eftir slíkum eignarhlut? Mörgum finnst einmitt að Flugleiðir ráði of miklu varðandi rekstur og framgang mála þar syðra og loki á aðra aðila t.d. varðandi lendingargjöld og ýmislegt annað.

Herra forseti. Tími minn er búinn. Ég vil bara árétta það að þó að ég hafi virkað hér gagnrýninn á ýmsa hluti þá held ég að við þurfum að vera það. Ég held að við þurfum að skoða þessi mál algjörlega í botn og gefa okkur ekkert fyrir fram. Mér finnst, af athugasemdum með frv., að menn geri það dálítið og gefi sér ekki nægilegan tíma til að skoða allar hliðar málsins.