Stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 13:54:36 (5714)

2000-03-23 13:54:36# 125. lþ. 86.3 fundur 502. mál: #A stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar# frv. 76/2000, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[13:54]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef ekki talið neina ástæðu til þess að breyta skipulaginu eins og það var, þ.e. að flugstöðin skilaði miklum peningum til ríkissjóðs og flugstöðin mun áfram skila miklum peningum til ríkissjóðs. Þarna er að vísu munur upp á 140 millj. að meðaltali á ári sem getur þá gengið til þess að greiða niður skuldir. En það sem við höfum fyrst og fremst lagt áherslu á er að auka tekjur flugstöðvarinnar, skapa nýjan grundvöll, vegna þess að þetta er mjög góð starfsemi sem þarna er fyrir hendi. Það eru gífurlegir möguleikar en að mínu mati hefur þeim möguleikum ekki verið sinnt sem skyldi.

Ég er þó alveg sannfærður um að þegar ný stjórn kemur að þessu fyrirtæki sem hefur þekkingu á málum, þá eru miklu meiri líkur til þess að þeir möguleikar sem eru fyrir hendi verði nýttir heldur en að fyrirtækið verði rekið, eins og ég hef sagt, sem deild í utanrrn. Þó að ég hafi mikla trú á embættismönnum mínum og því ágæta fólki sem þar er, þá er það ekki sérstaklega ráðið þangað inn með tilliti til verslunarrekstrar á Keflavíkurflugvelli, að flutningsskyldir diplómatar eigi á hverjum tíma að hafa mikið vit á klæðaverslunum eða skóverslunum á Keflavíkurflugvelli. Það er ekki eðli þeirra starfa.