Stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 13:58:42 (5716)

2000-03-23 13:58:42# 125. lþ. 86.3 fundur 502. mál: #A stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar# frv. 76/2000, ÍGP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[13:58]

Ísólfur Gylfi Pálmason (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson sagði að spurningarnar væru í raun fleiri en svörin og það er akkúrat það sem knýr mig hingað upp. Ég deili að vísu áhyggjum mínum með honum varðandi starfsmannamál í Leifsstöð eins og reyndar á við um önnur starfsmannamál ríkisins hvort heldur er í ríkisfyrirtækjum eða fyrirtækjum sem hafa verið hlutafjárvædd því að í starfsmönnunum eru auðvitað fólgin gríðarlega mikil verðmæti.

Hv. þm. talaði líka um pólitíska fjarlægð. Ég er alveg sannfærður um að við hlutafjárvæðingu verður hin pólitíska fjarlægð meiri.

En spurningar mínar sem vöknuðu þegar ég hlustaði á hv. þm. voru í fyrsta lagi hvort þingmaðurinn sé á móti því að Flugstöð Leifs Eiríkssonar verði hlutafjárvædd. Ég náði því ekki alveg í ræðu hans og gott væri að fá alveg skýrt svar við því hvort hann er á móti þessu. Og hin spurningin var sú hvort þingmaðurinn sé á móti því að stækka Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Það kom ekki fram í ræðu hans áðan þegar hann fjallaði um þessi mál á mjög breiðum grunni og eftir standa í raun þessar tvær spurningar.