Stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 14:21:43 (5724)

2000-03-23 14:21:43# 125. lþ. 86.3 fundur 502. mál: #A stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar# frv. 76/2000, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[14:21]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal lýsti því yfir í ræðu sinni að hann væri á móti fríhöfnum vegna eðlis þeirra, þær störfuðu í skjóli skattfríðinda, en lýsti því jafnframt yfir að hann mundi sennilega ekki hafa afl til að berjast gegn þeim þar sem þær væri að finna um allan heim.

Nú veit ég að hv. þm. Pétur Blöndal getur frætt þingheim um hvernig háttað er með fríhafnir almennt. Upplýsingar mínar segja að þeim fari óðum fækkandi í Evrópu, sérstaklega vegna tollabandalags Evrópu. Þetta hangir kannski saman við þá umræðu sem við höfum átt hér og áttum í gær um aðild okkar að Schengen-svæðinu, að með tilkomu tollabandalags Evrópubandalagsríkja falla niður möguleikarnir á því að reka fríhafnir.

Ég hefði gaman af að heyra hv. þm. staðfesta þá skoðun eða það sem ég hef heyrt um þetta mál. Jafnframt langar mig að spyrja um hagnaðarvon væntanlegra aðila sem gætu hugsanlega boðið í Fríhöfnina okkar eða flugstöðina þegar hún verður síðan auglýst til sölu. Hv. þm. segir að hagnaðarvonin sé umtalsverð vegna þess að þarna sé starfað í skjóli skattfríðinda. En hvað gerist þá ef við, íslensk þjóð, verðum síðan aðili að Evrópusambandinu? Erum við þá ekki búin að deyfa og veikja allar hagnaðarvonir þeirra sem mögulega mundu vilja eignast þessa flugstöð og þar með talið Fríhöfnina?