Stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 16:57:03 (5762)

2000-03-23 16:57:03# 125. lþ. 86.3 fundur 502. mál: #A stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar# frv. 76/2000, GÁS
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[16:57]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að draga þessa umræðu á langinn. Hún hefur um margt verið býsna fróðleg og sýnt okkur að það er ekki endilega allt sem sýnist í þessu. Einfaldar yfirlýsingar og einföld stefnumið leysa ekki sjálfkrafa öll vandamál. Það eitt að formbreyta þessu fyrirtæki breytir ekki nóttu í dag.

Það var einkar athyglisvert að fylgjast með orðaskiptum hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar og Ögmundar Jónassonar og mátti skilja á innskoti hins fyrrnefnda að raunar væri brýn nauðsyn á því að ríkissjóður setti á sig lög, lög á borð við þau sem hér eru í frumvarpsformi til að tryggja að tekjur af Fríhöfninni skiluðu sér rétta leið, nefnilega til hennar sjálfrar. Af orðum hans mátti ráða að það væri í raun tilgangurinn með hlutafélagavæðingunni, að tryggja að ríkisstjórnin skilaði þessum peningum á réttan stað. Það er einkar athyglisvert að það sé ein helsta ástæða þess að formbreyta og hlutafélagavæða og alveg nýtt innlegg í málið.

Ég ræddi hins vegar eilítið, herra forseti, í fyrri ræðu minni um þá stöðu sem uppi væri í Fríhöfninni nú um stundir, hvað þar blasti við með frv. sem hér liggur frammi því að á öllum hlutum eru ýmsar hliðar eins og hér hefur komið fram. Ég dvaldi dálítið við rekstur Fríhafnarinnar, þann hluta sem ríkisrekinn er og skilar sannarlega mestu til eigandans, ríkissjóðs, eiganda mannvirkjanna sem eru skuldsett eins og raun ber vitni upp á tæpa 5 milljarða kr.

Ég ætla að verja nokkrum mínútum, herra forseti, í að fara aðeins yfir hina hliðina á þessum peningi, rifja upp hin stóru áform og stóru orð sem uppi voru hér fyrir einhverjum missirum þegar ný skipan mála var tekin upp þar syðra. Hv. þm. Sigríður Jóhannesdóttir drap á þetta í ræðu sinni, þ.e. samkeppnisstöðu þeirra fyrirtækja sem eru þarna syðra í samkeppni við ríkisreksturinn. Það er hárrétt sem hún sagði áðan, að þessi fyrirtæki voru löðuð til rekstrar þarna í stórum stíl og smáum. Stór fyrirtæki eins og Íslenskur markaður og smærri búðir, skóverslanir hafa hér tíðum verið nefndar. Staðreyndin er að rekstur þessara fyrirtækja hefur ekki gengið nægilega vel. Þau hafa mjög átt undir högg að sækja. Ýmsar skýringar eru á því. Sumir halda því fram að samkeppnisstaðan sé afskaplega ójöfn, það séu svipaðar vörutegundir hjá Fríhöfninni og hjá Íslenskum markaði og jafnvel öðrum verslunum þarna. Raunin hefur einmitt orðið sú að þessar smærri verslanir hafa týnt tölunni ákaflega hratt.

[17:00]

Eftir því sem ég best veit voru opnaðar átta verslanir þarna í kjölfar þessarar nýskipunar. Tvær eru hættar, eigendaskipti hafa orðið á einni þeirra vegna rekstrarerfiðleika, tvær hafa algjörlega skipt um vöruúrval og flestar þeirra ganga illa, það eru kannski ein eða tvær undantekningar þar frá.

Þetta er nú bakhliðin á þeirri glansmynd sem hæstv. utanrrh. hefur reynt að draga upp á hinu háa Alþingi þegar menn hafa verið að spyrjast fyrir um þessa nýskipan mála á Keflavíkurflugvelli. Þetta er sá veruleiki sem við okkur blasir. Og aukinheldur sem hæstv. ráðherra hefur beitt sér fyrir að auka verulega kostnað við yfirstjórn þarna syðra með því að tvískipta stjórnunarþættinum og setja flugvallarstjóra annars vega og forstjóra Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hins vegar með tilheyrandi aðstoðarfólki í hvorri deildinni. Það væri fróðlegt að heyra hversu mikið þetta nýja fyrirkomulag hafi sparað í yfirstjórn Leifsstöðvar. Ég er ekki með það handbært en vafalaust hefur hæstv. ráðherra það og getur fært rök að þeim fullyrðingum sem maður hefur heyrt hér frá honum að allur rekstur hafi farið batnandi.

En vangaveltur mínar snúast fyrst og fremst um það hvernig þessi nýskipan, hlutafélagavæðingin, spili inn í það andrúmsloft og þær kringumstæður sem þarna eru. Mun þetta einfalda mjög hina erfiðu stöðu sem þarna er til staðar og ekki er auðvelt úr að leysa? Mun þetta einfalda mjög hina réttmætu samkeppni byggða á jafnræðisgrundvelli, að hlutafélag undir sjálfstæðri stjórn eigi bygginguna og langstærsta fyrirtækið þarna innan dyra, hlutafélag sem hefur auðvitað það markmið fyrst og síðast og eingöngu að hámarka sinn arð eðli máls samkvæmt? Telur hæstv. ráðherra að það verði auðveldara fyrir samkeppnisaðila hins nýja hlutafélags, ríkissjóð, að vera í samkeppni við hið nýja öfluga hlutafélag á þennan hátt?

Þessir aðilar munu væntanlega þurfa að sækja til hlutafélagsins um ný og breytt leigukjör ef efni standa til þess. Þetta nýja hlutafélag mun væntanlega taka ákvarðanir um hverjir verða hvar í þessari flugstöð, hinni gömlu og hinni nýju. Og hefur hann engar áhyggjur af því í ljósi þeirrar þróunar sem átt hefur sér stað, einkum og sér í lagi eftir að Landssíminn var hlutafélagavæddur, að erfitt verði að koma þessu öllu heim og saman með hliðsjón af samkeppnislögum til að mynda?

Ég er að reyna að draga upp kannski örlítið aðra mynd en ég gerði í fyrri ræðu minni en þetta er hin hliðin á þessum peningi líka. Í fljótu bragði fæ ég ekki séð að þetta muni sérstaklega einfalda þessi samskipti heldur kannski þvert á móti. Ég hef áhyggjur af því.

Stór tekjupóstur í rekstraráætlun hins nýja hlutafélags miðar að því að leigutekjur flugstöðvarinnar fari verulega hækkandi. Þá vísa ég til þess að frá árinu 2001 og til ársins 2005 fari þær upp um 200 millj. kr., ekki vegna þess að plássið aukist neitt því að hið nýja líf hlutafélagsins byrjar væntanlega eftir stækkun. Einhvers staðar á að ná í hærri leigutekjur. Það má hugsa sér að það sé gert með því að hlutafélagið rukki undirstofnanir og undirdeildir sínar um hærri leigu, en það er auðvitað bara hringrás peninganna og skiptir ekki nokkru máli til eða frá.

Ég vil gjarnan heyra hæstv. ráðherra fara aðeins yfir það hvernig hann sér þetta rekstrarumhverfi fyrir sér að breyttu breytanda þegar þetta hlutafélag er orðið um hús og rekstur og er í samkeppni við aðra aðila þarna sem um leið eru að kaupa sér þjónustu hjá þessu sama hlutafélagi. Það geta svo sem margir sagt að þetta sé í raun engin breyting, hlutafélagið komi bara í staðinn fyrir ríkissjóð. Það kann vel að vera en ég hygg þó að eðlisbreytingin sé þessi, að hlutafélagið hefur engum öðrum skyldum að gegna nema hámarka sinn gróða, og það á auðvitað að gera það og við byggjum á því að það geri það. Enda hefur hæstv. ráðherra sagt það sjálfur að hann ætli ekki að snerta á þessum rekstri, þarna komi aðilar inn sem hafi þekkingu á ilmvötnum og rekstri skóbúða og flugstöðva og hafi sérþekkingu með höndum. Þeir munu þá væntanlega ganga til þeirra verka að hámarka þetta.

En hvað þá með rekstrarumhverfið innan stöðvarinnar að breyttu breytanda? Því landslagi þurfum við líka að velta fyrir okkur og má kannski segja að kveði við eilítið annan tón í þessari seinni ræðu minni. En ég vil ekkert síður gaumgæfa hvað við erum að gera á þeim vettvangi mála.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta. Ég segi það eitt að eftir því sem á þessa umræðu hefur liðið þykir mér einsýnt að í þetta mál verði að kafa. Hæstv. ráðherra verður auðvitað var við að við hv. þm. Samfylkingarinnar í Reykjaneskjördæmi höfum viljað fylgjast grannt með framgangi málsins, enda er það svo að flestir starfsmenn þessa stóra vinnustaðar eru einmitt íbúar í kjördæmi okkar. Það vekur hins vegar athygli að þingmenn stjórnarflokkanna í Reykjaneskjördæmi sýna þessu lítinn áhuga, a.m.k. hafa fáir þeirra komið í þennan ræðustól undir umræðunni. Ég sakna þess ekki neitt en það sendir þó ákveðin skilaboð þarna suður yfir heiðar.