Stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 17:13:04 (5766)

2000-03-23 17:13:04# 125. lþ. 86.3 fundur 502. mál: #A stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar# frv. 76/2000, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[17:13]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna því að hv. þm. sér nú til sólar og sér ástæðu til að borga niður skuldir. Hann hefur raunar haft tækifæri til þess að beita sér innan þingflokks síns og innan ríkisstjórnarflokka allt frá árinu 1991 en viðhorf hans hafa greinilega ekki náð fram að ganga þannig að skuldirnar eru gjörsamlega óbreyttar frá því sem þær voru þegar flugstöðin var byggð.

Það er ekkert í hendi sem tryggir það að hlutafélagavæðingin auki tekjur flugstöðvarinnar með þessu frv. Það á eftir að koma í ljós. Ég nefndi það í ræðu minni hvernig það gæti í raun flækt þá samkeppni sem er til staðar innan flugstöðvarinnar þótt flugstöðin sem stofnun sé ekki í samkeppni við einn eða neinn. Við skulum því ekki skapa okkur falskt öryggi með þessari nafnbreytingu einni saman.

Að lyktum vil ég segja að ég fagna áhuga hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar á þessu máli sem er í utanrmn. en einnig þingmaður Vestfirðinga. Kollegar hans úr þingflokki Sjálftsfl. úr Reykjaneskjördæmi hafa ekki sýnt þessu sérstakan áhuga þó að hv. þm., formaður þingflokksins Sjálfstfl., hafi komið hér í andsvar af óskyldu efni. En ég segi það að lyktum að sitthvað á eftir að útskýra í þessu og sitthvað eftir að setja hér upp á borð til að unnt sé fyrir þingmenn í heild og breidd að taka efnislega afstöðu til frv. Það vantar mikið upp á það. Ég vænti þess að hæstv. utanrrh. geti varpað ljósi á einhverja hluti í lokaræðu sinni.

En það er mikið verk fyrir höndum í utanrmn. og þarf hörku Vestfirðinga til.