Stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 17:32:52 (5773)

2000-03-23 17:32:52# 125. lþ. 86.3 fundur 502. mál: #A stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar# frv. 76/2000, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[17:32]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil fyrst og fremst fá hæfa einstaklinga í þessa stjórn og ég bendi á þá ráðgefandi stjórn sem er að störfum í flugstöðinni. Ég veit ekki til að neinn af þeim sé flokksbundinn í Framsfl. og veit ekki um pólitískar skoðanir þeirra.

Hv. þm. spurði hvort ég væri tilbúinn að standa að breytingum á þingsköpum. Ég hef ekki tekið þátt í þeirri umræðu og er að sjálfsögðu tilbúinn að fara yfir það. Ég lít svo á að eftirlitsaðili Alþingis í þessum tilvikum sé Ríkisendurskoðun. Ríkisendurskoðun er stofnun Alþingis og á að fylgjast með málum sem þessum fyrir hönd Alþingis.

Að hve miklu leyti á að miðla upplýsingum um svona rekstur í opinberri umræðu? Ég skal ekki leggja mat á það. Mér finnst sjálfsagt að fara yfir þessi mál. En það er að sjálfsögðu ekki undir mér einum komið heldur atriði sem verður að ræða í forsn., á milli flokkanna hér á Alþingi. En ef þarna er talið að mjög skorti á upplýsingamiðlun þá er sjálfsagt að fara yfir það.

Hv. þm. spurði hvort ekki hefði verið rétt að bíða með þessa breytingu. Svar mitt er nei. Ég tel mikilvægt að þetta gerist strax þannig að undirbúningurinn verði sem bestur. Það er ekki gott að koma með tillögu eins og þessa og láta síðan dragast langtímum saman að koma á breytingum. Það er óheppilegt og eykur líkurnar á lausatökum. Svona mikilvæg starfsemi verður að vera í föstum skorðum og það er ómögulegt að búa við langt óvissuástand í þessum efnum.