Stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 17:39:14 (5777)

2000-03-23 17:39:14# 125. lþ. 86.3 fundur 502. mál: #A stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar# frv. 76/2000, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[17:39]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin.

Ég vil ítreka það, eins og reyndar kom fram í andsvari hans, að það er umhugsunarefni þegar rekstrarleg ábyrgð og forsjá flughafnar og flugvallar er færð á sína hvora höndina. Ég held að það sé íhugunarefni og að skoða eigi hvort það sé í raun rétt að eignarhald á flugvöllum sé breytilegt í nágrannalöndunum.

Varðandi fjármagnið sem veita á til flugvallarins þá er ég að benda á að mikilvægi þessa flugvallar og flughafnar gerir að verkum að það er nánast ríkisábyrgð á öllu sem þar er. Enginn mundi þola rekstrarstöðvun á slíkum flugvelli. Einhver hlýtur að þurfa að standa straum af þeim kostnaði sem ráð er fyrir gert til uppbyggingar þessarar flughafnar á næstu árum, upp á nokkra milljarða kr. Einhver þarf að borga af því og bera ábyrgð á því. Ég tel að þær ábyrgðir sem íslenska ríkið hefur gagnvart þeirri starfsemi sem þarna fer fram eigi að skoðast mjög vandlega.