Ný gögn í Geirfinnsmálinu

Mánudaginn 03. apríl 2000, kl. 15:14:39 (5791)

2000-04-03 15:14:39# 125. lþ. 87.1 fundur 414#B ný gögn í Geirfinnsmálinu# (óundirbúin fsp.), RG
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 125. lþ.

[15:14]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Ég verð að viðurkenna að ég vonaðist eftir afdráttarlausari svörum. Magnús Leópoldsson fór fram á opinbera rannsókn á tildrögum þess að hann var grunaður um aðild að hvarfi Geirfinns Einarssonar og farið var fram á að ríkissaksóknari fyndi gögn sem ekki hafa komið fram síðan 1976. Sömuleiðis hafði Ragnar Aðalsteinsson leitað til embættanna á sínum tíma um ný gögn og urðu sum vel við erindum en ég minnist þess að fram hafi komið hjá honum að saksóknari hafi neitað um að kanna gögn þar.

Nú upplýsir hæstv. dómsmrh. hér að það hafi verið mat þeirra sem að komu á sínum tíma að gögnin skiptu ekki máli um málsmeðferð. Þetta vekur furðu mína miðað við að tveir lögmenn þessara einstaklinga hafa kallað eftir nákvæmlega þessum gögnum sem ekki fundust.

Ég spyr hæstv. dómsmrh. aftur hvort hún muni beita sér fyrir því að þetta mál verði tekið upp til þess að reyna að gefa viðkomandi aðilum réttláta málsmeðferð.