Sérstaða framhaldsskóla með bekkjakerfi

Mánudaginn 03. apríl 2000, kl. 15:26:13 (5800)

2000-04-03 15:26:13# 125. lþ. 87.1 fundur 416#B sérstaða framhaldsskóla með bekkjakerfi# (óundirbúin fsp.), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 125. lþ.

[15:26]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Þetta mál er flóknara en svo að hv. þm. hafi vikið að því öllu í ræðu sinni enda er framkvæmd á námskránni ekki háð samkomulagi við menntmrh. heldur verða skólarnir að laga sig að nýjum kröfum með mismunandi hætti eftir því hvort þeir eru fjölbrautaskólar eða bekkjakerfisskólar.

Ég hef farið í alla framhaldsskóla landsins nema einn, ég mun fara í hann núna eftir rúma viku, framhaldsskólann á Vestfjörðum eða Menntaskólann á Ísafirði eins og hann vill kalla sig núna. Ég get fullvissað hv. þm. um að það eru engin vandræði í neinum af þessum skólum við að laga sig að námskránni. Bekkjakerfisskólarnir verða að gera það með sínum hætti og fjölbrautakerfisskólarnir með sínum hætti.

Hvað varðar Verslunarskóla Íslands kemur fram í samkomulagi eða yfirlýsingu sem við rituðum undir, ég og skólastjóri Verslunarskólans, að allir nemendur þess skóla ljúka verslunarprófi og bæta síðan við sig einingum til stúdentsprófs. Nám í Verslunarskólanum er því byggt upp samkvæmt skilgreiningu menntmrn. á starfsnámskerfi þar sem fyrstu prófin veita ákveðin starfsréttindi og svo bæta nemendur við sig einingum til stúdentsprófs. Það eru mismunandi námsgreinar eftir því hvaða nám menn hyggjast stunda að loknu stúdentsprófi.

Einnig vil ég minna á að samkvæmt breytingum sem gerðar voru á framhaldsskólalögunum á Alþingi skömmu fyrir jól þá er það svo að hvort heldur menn eru í bóknámi eða starfsnámi þá ljúka þeir námi sínu með stúdentsprófi ef þeir ætla í háskólanám. Próf sem háskólar viðurkenna er stúdentspróf, hvort sem nám er starfsnám eða bóknám. Námið snýst um útfærslu á námskránni og hefur alltaf snúist. Það hefur aldrei snúist um undanþágur frá námskránni eða annað slíkt.