Vegurinn fyrir Búlandshöfða

Mánudaginn 03. apríl 2000, kl. 15:39:01 (5811)

2000-04-03 15:39:01# 125. lþ. 87.1 fundur 418#B vegurinn fyrir Búlandshöfða# (óundirbúin fsp.), samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 125. lþ.

[15:39]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Vegna fyrirspurnar hv. þm. vil ég segja að náttúruhamfarir gera ekki að jafnaði boð á undan sér. Það er auðvitað deginum ljósara að vegna þeirrar feiknarlegu úrkomu sem varð þá fór sem fór í Búlandshöfðanum.

Vegagerðin mun að sjálfsögðu gefa skýrslu um aðstæður þarna í veginum við Búlandshöfða og hvernig staðið hefur verið að viðgerðum og mun að sjálfsögðu reyna að leggja mat á hvað hafi gerst því að það er í fyllsta máta óvenjulegt og óeðlilegt að slíkt geti komið fyrir á nýjum vegi. Ég vil ekkert fullyrða um hvað hefur orðið þarna. Það er alveg ljóst að þarna hefur orðið verulega mikið tjón en ég get ekki fallist á að ástæða sé til þess að vekja þann ótta eða áhyggjur sem hv. þm. ræddi um.

Hvort eigi að koma upp viðvörunarkerfi, þá þarf auðvitað að meta það. Það er mikið fyrirtæki og það verður að skoða hvort ástæða er talin til þess. Ég hef þegar eins og við er að búast farið yfir þetta með vegamálastjóra og hann mun skila skýrslu til samgrn. um það sem þarna gerðist og mun væntanlega leggja á ráðin um hvað hægt sé að gera til þess að bæta þarna úr.