Ábúðarlög

Mánudaginn 03. apríl 2000, kl. 16:21:49 (5828)

2000-04-03 16:21:49# 125. lþ. 87.4 fundur 239. mál: #A ábúðarlög# frv. 21/2000, Frsm. meiri hluta DrH
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 125. lþ.

[16:21]

Frsm. meiri hluta landbn. (Drífa Hjartardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 721, 239. mál, um frv. til laga um breytingu á ábúðarlögum, nr. 64/1976, með síðari breytingum, frá meiri hluta landbn.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðmund Sigþórsson, skrifstofustjóra í landbrn. Umsagnir bárust um málið frá Sýslumannafélagi Íslands, Búnaðarsambandi Suðurlands, Búnaðarsambandi Vestfjarða og Búnaðarsambandi Skagfirðinga. Nefndin ræddi einnig brtt. frá landbrn. við 2. mgr. 4. gr. frv. ásamt greinargerð frá Stefáni Ingólfssyni verkfræðingi um mat á eignum á jörðum og matshandbók.

Í frv. er lagt til að samræma verðmat mannvirkja og endurbóta í eigu fráfarandi ábúenda á jörðum á öllu landinu. Í því skyni er m.a. gert ráð fyrir breyttu fyrirkomulagi á skipan úttektarmanna og yfirmatsnefndar og settar viðmiðunarreglur um mat á eignum og endurbótum. Meiri hluti nefndarinnar telur nauðsynlegt að samræma vinnubrögð á þessu sviði og bendir jafnframt á mikilvægi þess að úttektarmenn hafi sérþekkingu annars vegar á mati jarða og hins vegar á mati fasteigna.

Meiri hlutinn mælir með samþykkt frv. með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Einar Oddur Kristjánsson og Sigríður Ingvarsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nál. rita Kristinn H. Gunnarsson, Einar Már Sigurðarson, Drífa Hjartardóttir, Guðjón Guðmundsson, Jónína Bjartmarz og Guðmundur Árni Stefánsson.