Ábúðarlög

Mánudaginn 03. apríl 2000, kl. 16:24:07 (5829)

2000-04-03 16:24:07# 125. lþ. 87.4 fundur 239. mál: #A ábúðarlög# frv. 21/2000, Frsm. minni hluta ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 125. lþ.

[16:24]

Frsm. minni hluta landbn. (Þuríður Backman):

Herra forseti. Ég vil gera grein fyrir nál. á þskj. 900, 239. mál, um frv. til laga um breytingu á ábúðarlögum, nr. 64/1976, með síðari breytingum. Það er frá minni hluta landbn. eða með undirritun minni og er svohljóðandi:

,,Í frv. er lagt til að samræma verðmat mannvirkja og endurbóta í eigu fráfarandi ábúenda á jörðum á öllu landinu. Núverandi fyrirkomulag býður upp á mismunun á mati, sérstaklega þar sem engar samræmdar matsreglur liggja fyrir. Sömuleiðis er erfitt að halda uppi faglegri þjálfun matsmanna þegar fá verkefni koma til hvers sveitarfélags á hverju kjörtímabili. Samræmdar reglur eða matshandbók er því nauðsynleg hið allra fyrsta og mundi ein sér samræma að mestu mat á jörðum á landinu öllu við óbreytta skipan úttektarmanna og gæti því dugað til bráðabirgða þar til heildarendurskoðun ábúðarlaga væri lokið.

Gild rök geta verið fyrir því að stækka svæði úttektarmanna með tilliti til þjálfunar og samræmingar á mati. Í frv. er lagt til að landið verði eitt skoðunarsvæði og að landbrh. skipi tvo úttektarmenn, annan samkvæmt tilnefningu Bændasamtaka Íslands og hinn án tilnefningar. Ekki kemur fram hvar úttektarmenn eigi að sitja.

Hægt er velja mismunandi leiðir til að stækka svæði úttektarmanna án þess að ganga svo langt að gera landið allt að einu úttektarsvæði. Ýmsir erfiðleikar geta verið því samfara, m.a. vegna þess að úttektir þarf að framkvæma allar á sama tíma eftir fardaga og á tilskildum tíma. Að auki gæti ferða- og dvalarkostnaður verið óhóflega mikill. Í 41. gr. núgildandi laga er kveðið á um greiðslur til úttektarmanna en í frv. er skilinn eftir opinn reikningur gagnvart hlutaðeigandi aðilum. Frv. mun leiða til aukins kostnaðar leigutaka við ábúðarskipti frá því sem nú er.

Mikilvægt er að um mat á jörðum sjái aðilar sem eru sérfróðir um landbúnað, byggingar og lögfræðileg atriði sem snerta ábúðaskipti. Þá verður að teljast stjórnsýslulega hæpið að landeigandi, sem er í flestum tilfellum ríkið, setji reglur um útreikning á raunvirði eigna og skipi jafnframt úttektarmenn og yfirmatsnefnd. Í þeim tilfellum þegar ríkið er ekki eignaraðili og leigusali jarða þurfa lögin að taka tillit til þess að sátt getur verið milli landeigenda og leigutaka um úttektir, mat og leigu á jörð. Ástæðulaust er þá að efna til óþarfa kostnaðar við ábúðarskiptin.

Til að stækka svæði úttektarmanna frá því sem nú er, án þess að ganga svo langt að gera landið allt að einu svæði, er hægt að setja úttektina undir svæði og ábyrgð sýslumannsembættanna. Þar kemur annar stjórnsýsluaðili að málinu. Fyrir hendi eru ákvæði um skipan úttektarmanna eða virðingagjörðarmanna á vegum sýslumannsumdæmanna sem sinna landskiptum og meta veðhæfni jarða. Með því að fela sýslumönnum umsjónina styrkjast verkefni og fagleg vinna á landsbyggðinni. Samkvæmt þessari svæðaskiptingu og faglegum kröfum yrðu úttektarmenn þrír, þ.e. einn tilnefndur af sýslumanni, einn af viðkomandi búnaðarsambandi og einn af samtökum sveitarfélaga á viðkomandi svæði og væri hann byggingafróður maður.

Landbrh. hefur skipað nefnd til að endurskoða lagaákvæði sem snerta jarðir. Mikilvægt er að hraða heildarendurskoðun ábúðarlaga, jarðalaga og laga um Jarðasjóð og getur þessi breyting á ábúðarlögum vel beðið hennar.``

Með tilliti til nál. frá undirritaðri eru lagðar fram brtt. á þskj. 901. Það er brtt. við 2. gr. frv. um að greinin orðist svo:

,,39. gr. laganna hljóðar svo:

Sýslumenn skulu hver í sínu umdæmi skipa þrjá úttektarmenn til fjögurra ára í senn til að framkvæma úttektir á jörðum og mat á eignum og endurbótum fráfarandi ábúanda við ábúðarlok. Skal einn tilnefndur af viðkomandi búnaðarsambandi, einn tilnefndur af samtökum sveitarfélaga í viðkomandi umdæmi og skal hann vera sérfróður um byggingar og einn án tilnefningar. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt.``

[16:30]

Við 6. gr. er brtt. um að greinin orðist svo:

,,43. gr. laganna hljóðar svo:

Úttektarmenn fá þóknun fyrir starf sitt sem hér segir:

1. Fyrir úttekt á jörð skal greiðslan miðast við dagkaup, eins og það er reiknað í verðlagsgrundvelli landbúnaðarafurða hverju sinni. Kostnaður þessi greiðist að jöfnu af fráfaranda og viðtakanda.

2. Fyrir aðrar virðingar- og skoðunargerðir ákveðst greiðslan á sama hátt, og ber þeim að greiða, sem krafist hefur virðingar- eða skoðunargerðar. Þó kosta landsdrottinn og leiguliði skoðun og virðing, sem gerð er skv. 16. gr., að hálfu hvor.``

Við 7. gr. er gerð sú brtt. að 1. efnismgr. orðist svo:

,,Landeigandi og fráfarandi ábúandi geta krafist yfirmats á eignum fráfarandi ábúanda samkvæmt lögum þessum innan fjögurra vikna frá dagsetning úttektar skv. 42. gr.``

Ég mæli fyrir þessum brtt. þar sem ábúðarlögin eru í endurskoðun ásamt fleiri lögum sem snerta jarðir. Þessi lög skarast og mjög erfitt er að taka hluta laganna án þess að koma inn á önnur svið í öðrum lögum. Því tel ég mjög brýnt að endurskoðun sé hraðað og ekki verði tekið eins stórt skref eins og tillögur meiri hlutans gera ráð fyrir, a.m.k. ekki að sinni, heldur verði farin sú leið að fela sýslumannsembættunum að gera þetta því að þeir hafa nú þegar hluta af þessu mati hjá sér. Auk þess er mjög nauðsynlegt að lögfróðir menn komi að málinu og það ætti að skila sér í því að málaferli og klögumál eftir að úrskurður hefur átt sér stað eða matið er lagt fram verði færri ef lögfræðileg ágreiningsmál eru leyst áður en matið er lagt fram.

Við höfum því miður ekki staðið okkur hvað varðar skráningu landareigna og landamerkja. Þar er mjög mikil vinna fram undan hjá okkur og það hefur sýnt sig í þeim svæðaskipulögum sem farið hefur verið í að þetta er meiri háttar mál og kostnaðarsamt að koma landamerkjum á hreint. Þegar verið er að breyta skipulagslögum eins og hefur verið gert varðandi miðhálendið er enn frekar mikilvægt að landamerki séu óumdeild og það er hluti af þessu og þar kemur þessi lögfræðilega þekking og úrlestur á skjölum inn í vinnuna.

Þetta er helsta ástæðan fyrir breytingunni að taka ekki svona stórt skref. Fyrir utan það að halda þessu hjá sýslumannsembættunum höldum við vinnunni örugglega heima í héruðum en forðumst þá nálægð sem er í dag í minnstu sveitarfélögunum þegar fámenni, skyldleiki og kunningsskapur hlýtur að hafa áhrif á afstöðu manna til verðmætamats fyrir utan það að í dag er engin handbók eða leiðbeiningar fyrir úttektarmenn til að fara eftir.

Eins og frv. liggur fyrir, eins og kom fram í brtt., getur það verið opin bók hvað varðar gjaldtöku. Ég tel betra að hafa þetta bundnara í sjálfum lögunum en að vísa eingöngu til reglugerðar eins og til stendur. En það var góð samstaða í nefndinni. Mér leyfist að segja, það litla sem við ræddum þetta, að við hefðum þurft að fara betur yfir málið áður en við afgreiddum það út úr þinginu og út úr nefndinni. Ég get líka tekið þá sök á mig að hafa ekki óskað eftir betri tíma til að fara yfir þær ábendingar sem komu við frv. því að þær voru nokkrar og þó svo að við værum öll sammála í nefndinni um að það yrði að hverfa frá núverandi fyrirkomulagi. Við vorum öll sammála um að stækka svæðin og að hver sveitarstjórn fyrir sig skipaði ekki tvo úttektarmenn. Um þetta vorum við sammála.

Ég met það svo að það hefði verið gott að við hefðum getað rætt betur um leiðir. Eins er mjög áríðandi að allri endurskoðun sem snerta ábúðarlögin verði mjög hraðað því að fram undan eru trúlega töluverðar breytingar hvað varðar búsetu fólks og þá vitna ég til nýrra sauðfjársamninga þar sem leyfð eru uppkaup hjá bændum á kvótum. Það mun örugglega hafa einhver áhrif á búsetu og hreyfingu fólks og má gera ráð fyrir því að fyrstu tvö árin sem samningurinn er í gildi verði meiri hreyfing á búsetu sauðfjárbænda en verið hefur. Þetta eru spádómar. En það er margt sem kallar á að hraða þessari vinnu og að ábúendur, leiguliðar, geti treyst faglegum vinnubrögðum við úttekt á jörðum. Þetta er mikið peningalegt spursmál og handbókin ein og sér mun örugglega leiða margt gott af sér.