Ábúðarlög

Mánudaginn 03. apríl 2000, kl. 16:37:27 (5830)

2000-04-03 16:37:27# 125. lþ. 87.4 fundur 239. mál: #A ábúðarlög# frv. 21/2000, JB
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 125. lþ.

[16:37]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil aðeins hnykkja á atriðum sem komu m.a. fram í máli hv. þm. Þuríðar Backman varðandi frv. til laga um breytingu á ábúðarlögum, með síðari breytingum.

Ég vil benda á, eins og þar kemur fram, að landbrh. fer með meginhluta jarðeigna sem munu koma til kasta ábúðarlaganna og fer hann með þau mál fyrir hönd ríkisins. Það er hann sem setur reglugerðir um hvernig skuli meta eða virða eignir og mannvirki við ábúendaskipti. Það er hann sem skipar úttektarmennina samkvæmt þessu frv., það er hann sem skipar úttektarmennina til að gera úttektina og það er landbrh. sem skipar síðan líka yfirmatsnefndina ef mál fara þangað.

Þó vafalaust megi finna því stað að þetta sé ekki ólöglegt er það samt svo að þetta býður upp á stjórnsýslulega óvissu og gæti leitt til umræðu um hagsmunaárekstra. Ég tel að einmitt þessi atriði ætti að skoða mjög vandlega og sú tillaga sem kom fram hjá hv. þm. Þuríði Backman um að a.m.k. eitt annað stjórnsýslustig kæmi í þennan feril væri verulega til bóta. Enda þótt þetta sé í sjálfu sér ekki stórmál, og ekki er fjallað um margar jarðir árlega, þá eru þetta engu að síður eignir og oft og tíðum lífsstarf þess fólks sem á í hlut. Því er afar mikilvægt að öll sú vinna sé vönduð og hlutlaus.

Þá vil ég líka benda á stöðu jarða og ábúenda á jörðum sem eru ekki í ríkiseign en lúta samt ábúðarlögum en á því er ekki skýrt tekið í þessu frv. Þá er þeim gert skylt að fara í þennan úttektarferil þó svo landeigandi og leigjandi gætu orðið ásáttir um annað.

Það er líka ljóst að með frv. er opinn reikningur hvað kostnað varðar og alveg ljóst að hann mun aukast frá því sem nú er.

Ég vek athygli á þessu og tel reyndar, herra forseti, að eðlilegt væri að hv. landbn. skoðaði þetta frv. betur á milli 2. og 3. umr. og reyndi að sjá hvort ekki mætti þar enn betrumbæta.