Fjármálaeftirlit

Mánudaginn 03. apríl 2000, kl. 16:50:38 (5834)

2000-04-03 16:50:38# 125. lþ. 87.3 fundur 199. mál: #A fjármálaeftirlit# (breyting ýmissa laga) frv. 11/2000, Frsm. VE
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 125. lþ.

[16:50]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nál. og brtt. frá efh.- og viðskn. vegna frv. til laga um breytingar á lagaákvæðum um fjármálaeftirlit.

Nefndin fékk á sinn fund ýmsa aðila og sendi málið til umsagnar eins og gerð er grein fyrir í nál. Nefndin gerir tillögur um breytingar á frv. í 15 liðum sem fram koma á þskj. 775. Ég mun nú í örstuttu máli gera grein fyrir þessum tillögum.

Í fyrsta lagi er gerð tillaga um að ný grein bætist við frv. þar sem fyrst og fremst er um orðalagsbreytingu að ræða. Þar er hugtakanotkun gerð nákvæmari en er í lögunum.

Í öðru lagi er brtt. við 1. gr. frv. þar sem verið er að hnykkja á því að leiðbeinandi tilmæli Fjármálaeftirlitsins fjalli um hóp eftirlitsskyldra aðila.

Í þriðja lið er tillaga um breytingu á 2. gr. frv. sem er þannig efnislega að eftirlitsskyldur aðili sem í hlut á skuli bera kostnað af starfi sérfræðings að hluta eða öllu leyti eftir mati Fjármálaeftirlitsins. Það sem þarna er á ferðinni er að ekki sé algilt að fyrirtækið sem í hlut á greiði viðkomandi sérfræðingi heldur sé þetta háð mati eftir því hvers eðlis starf viðkomandi sérfræðings er.

Í fjórða lið brtt. er gerð tillaga um breytingu á 3. gr. frv. Þar er einungis um að ræða hugtakabreytingu.

Í fimmta lið brtt. er gert ráð fyrir því að í stað 4. og 5. gr. frv. komi ný grein er orðist eins og segir í brtt. Tilgangurinn er að sameina ákvæði um dagsektir og stjórnvaldssektir eins og þau eru í frv., lækka fjárhæðirnar frá því sem var í frv. og eins að fella út ákvæði um stjórnvaldssektir sem slíkar en taka upp ákvæði um févíti. Ákvæði um févíti eru til í lögum um kauphallir og þótti rétt að Fjármálaeftirlitið hefði svipaðar heimildir eða sambærilegar og þar eru. Í lögum um kauphallir er kveðið á um heimildir slíkra fyrirtækja til að leggja févíti á aðila.

Í sjötta lið brtt. eru gerð tillaga um breytingu á 6. gr. frv. þar sem tekið er á þagnarskylduákvæðum. Þar er gert ráð fyrir því að við bætist ný málsgrein er verði 2. efnismgr., svohljóðandi:

,,Upplýsingar sem háðar eru þagnarskyldu samkvæmt lögum sem gilda um eftirlitsskylda aðila eru háðar sambærilegri þagnarskyldu þegar þær hafa verið afhentar Fjármálaeftirlitinu.``

Þetta er ákveðin niðurstaða af hálfu nefndarinnar varðandi upplýsingar sem eftirlitsskyldir aðilar láta af hendi til Fjármálaeftirlitsins. Fjármálaeftirlitið hefur lagt á það mikla áherslu að ákveðinn trúnaður gildi gagnvart eftirlitsskyldum aðilum þegar þeir hafa látið upplýsingar af hendi og að ekki gangi að Fjármálaeftirliti sé skylt að afhenda trúnaðarupplýsingar sem eftirlitsskyldir aðilar búa yfir og afhenda Fjármálaeftirlitinu í góðri trú. Slíkt fyrirkomulag væri í alla staði mjög óeðlilegt.

Enn fremur eru orðalagsbreytingar í 2. efnismgr. 6. gr. frv. Síðan er nýtt orðalag í 3. efnismgr. sem verður 4. efnismgr.

Í sjöunda lið brtt. er lagt til að inn komi grein í lögin þar sem kveðið yrði á um að Fjármálaeftirlitið skuli gefa viðskrh. skýrslu um starfsemi sína fyrir 15. sept. ár hvert og í framhaldi af því skuli viðskrh. gera Alþingi grein fyrir starfsemi Fjármálaeftirlitsins. Slík skýrsla viðskrh. til Alþingis getur verið hluti af grg. með frv. um breytingu á greiðslum til Fjármálaeftirlitsins en um þær greiðslur gilda sérstök lög sem samþykkt voru hér á Alþingi fyrir síðustu áramót.

Í áttunda lið brtt. eru gerðar tillögur til breytingar á 8. gr. frv. þar sem fjallað er um kærunefnd. Þar er fyrst og fremst kveðið á um að 120 þús. kærugjald, sem kveðið er á um í lögunum, verði fellt niður. Einnig er lagt til að taka upp átta vikna frest fyrir kærunefnd til þess að skila niðurstöðu.

Í níunda lið brtt. er gerð tillaga um að við 2. málslið 1. efnismgr. 9. gr. bætist orðin ,,að því marki sem nauðsynlegt er vegna eftirlits skyldrar starfsemi``. Þetta fjallar um heimildir Fjármálaeftirlitsins til eftirlits með dótturfyrirtækjum eftirlitsskyldra fyrirtækja. Það er nauðsynlegt að Fjármálaeftirlitið geti haft eftirlit með þeim að því marki sem nauðsynlegt er vegna eftirlitsskyldrar starfsemi. Meiningin er ekki að Fjármálaeftirlitið hafi eftirlit með þessum fyrirtækjum að öðru leyti, slíkt mundi einungis vera að vekja upp falskar vonir um að starfsemi sem ekki er eftirlitsskyld njóti einhvers konar eftirlits af hálfu Fjármálaeftirlitsins. Enn fremur er orðalagsbreyting í þessum lið.

[17:00]

Í 10.--12. lið brtt. er verið að gera tillögur um orðalagsbreytingar.

Í 13. lið brtt. er gert ráð fyrir tillögu til breytinga á IV. kafla frv., þ.e. að það bætist ný málsgrein við 43. gr. vátryggingalaganna. Hún fjallar um það að stjórn vátryggingafélags skuli setja verklagsreglur um verðbréfaviðskipti félagsins, stjórnar þess og starfsmanna og að þessar verklagsreglurnar skuli staðfestar af Fjármálaeftirlitinu.

Hér er sem sé verið að taka upp í rekstri vátryggingafélaga svipaðar starfsskyldur og gilda í fjármálafyrirtækjum.

Í 14. lið brtt. er orðalagsbreyting.

Í 15. lið brtt. er sams konar tillaga um setningu verklagsreglna hjá lífeyrissjóðum og lagt er til að gildi fyrir vátryggingafélög, þ.e. að það eigi að setja verklagsreglur um verðbréfaviðskipti lífeyrissjóðs, stjórnar hans og starfsmanna og að þessar verklagsreglur skuli hljóta staðfestingu Fjármálaeftirlitsins.

Hæstv. forseti. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, Margrét Frímannsdóttir og Ögmundur Jónasson rita undir þetta nál. með fyrirvara og áskilja sér rétt til að leggja fram og styðja brtt. við málið. Að öðru leyti stendur nefndin að þessu nál. og þessum brtt. og leggur til að málið verði samþykkt með þeim brtt. sem hér hafa verið kynntar.