Fjármálaeftirlit

Mánudaginn 03. apríl 2000, kl. 17:03:39 (5836)

2000-04-03 17:03:39# 125. lþ. 87.3 fundur 199. mál: #A fjármálaeftirlit# (breyting ýmissa laga) frv. 11/2000, RG
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 125. lþ.

[17:03]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Á haustdögum lauk Samfylkingin vinnu sinni við þau mál sem hún lagði áherslu á í upphafi þings og kynnti sem helstu málin sem hún vildi sjá að næðu fram að ganga og taldi mjög mikilvæg. Þetta voru frv. um Fjármálaeftirlitið, frv. um Samkeppnisstofnun, frv. um siðareglur á fjármálamarkaði og um kauphallir.

Það var engin tilviljun að þetta voru fjögur mál sem þarna tengjast vegna þess að því hefur verið ábótavant að fylgja eftir mjög breyttum fjármálamarkaði. Þeim lögum sem voru sett í upphafi var orðið ábótavant og á það lögðum við mikla áherslu þegar við kynntum niðurstöðu vinnu okkar við þessi mál.

Þess vegna er það mjög ánægjulegt að náðst hafi samstaða um það frv. sem síðar kom fram frá ríkisstjórninni um breytingu á lagaákvæðum um fjármálaeftirlit og að mjög margt liggur saman í meginatriðum þess frv. og þá þeirra laga sem verða sett hér frá Alþingi á grundvelli frv. og á þeim viðhorfum sem Samfylkingin setti fram á fyrstu dögum þingsins með þessari málafernu sinni. Það sem við settum fram þarna byggir á því viðhorfi Samfylkingarinnar að nýta markaðskerfið til þess að byggja undir öflugt velferðarþjóðfélag sem Samfylkingin stendur vörð um. Það er alveg ljóst eftir því sem við skoðum þessi mál að mörgu var orðið ábótavant í þessum efnum.

Það átti líka eftir að koma í ljós, virðulegi forseti, síðar þegar við stóðum frammi fyrir einkavæðingu m.a. bankanna og miklu kappi sem hljóp í hlutabréfaviðskipti að menn voru svo vanbúnir skynsamlegum og réttlátum vinnubrögðum að þeir féllu í freistni til innherjaviðskipta og enn á ný var það undirstrikað hversu mikilvægt það væri að standa vel að málum þannig að fólk gæti treyst því að þeir sem vissu um bæði verðmæti eða breytingar á verðmætum fyrirtækja væru ekki að nýta sér þá vitneskju til þess að maka krókinn sjálfir.

Það er alveg ljóst að umræðan á Alþingi í vetur hefur leitt í ljós að miklu var ábótavant í þessum efnum og að mikilvægt er að ná saman um að breyta lögum og styrkja þær stofnanir sem ég hef hér vikið að. Og nú er verið að afgreiða þetta frv. um fjármálaeftirlit og að styrkja það.

Eitt af því sem okkur í Samfylkingunni fannst mjög mikilvægt þegar við vorum að fara yfir þessi mál var að styrkja heimildir Fjármálaeftirlitsins og úrræði, heimildir til að kalla eftir upplýsingum og þau úrræði sem Fjármálaeftirlitið þarf til bæði að knýja á um upplýsingar og gera kröfur um úrbætur á grundvelli þeirra krafna og tilmæla sem sett höfðu verið fram. Það voru líka viðhorf okkar að styrkja ætti heimildir Fjármálaeftirlitsins til að beita sektum. Þannig hefur verið staðið að málum í nágrannalöndum okkar og mikilvægt er fyrir okkur að standa þannig að málum að Fjármálaeftirlitið gæti fylgt eftir kröfum sínum og sett þær þannig fram að það væri vitað að Fjármálaeftirlitið gæti fylgt þeim eftir og að ekki yrði staðar numið. Þess vegna er mjög mikilvægt líka að verklagsreglur séu skýrar og eftirlit tryggt með þeim hætti að unnt sé að framfylgja því.

En af því að Samfylkingin flutti þessa málafernu í upphafi þings og ríkisstjórnin kom fram með frv. skömmu síðar, m.a. um Fjármálaeftirlitið þá vil ég spyrja formann efh.- og viðskn. hvernig þessi mál voru unnin og hvort það sé ekki ljóst að farið hafi verið yfir bæði málin saman og hvernig áherslur Samfylkingarinnar í því frv. sem hún flutti um fjármálaeftirlit hafa ratað inn í þetta nál. og þær brtt. sem hafa verið unnar sameiginlega í efh.- og viðskn. Ég tek það sérstaklega fram að þó að það sé með fyrirvara þá standa bæði Jóhanna Sigurðardóttir og Margrét Frímannsdóttir að þessu nál. En það er mjög mikilvægt að fá það fram frá formanni efh.- og viðskn. hvernig málið var unnið og að hvaða leyti tillit var tekið til okkar tillagna í þessu stóra og þýðingarmikla máli.