Álbræðsla á Grundartanga

Þriðjudaginn 04. apríl 2000, kl. 13:56:34 (5852)

2000-04-04 13:56:34# 125. lþ. 89.5 fundur 371. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# (fasteignaskattur) frv. 12/2000, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 125. lþ.

[13:56]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég vil nú þakka hv. nefndarmönnum fyrir að hafa tekið þessi mál til umfjöllunar. Þessi mál voru hér rædd við 1. umr. málsins. Ég tók þátt í henni og fannst full ástæða til að menn skoðuðu vandlega hvort hægt væri að taka á þessu máli með breytingum á lögum. Þessi lög eru út af fyrir sig sérstök, eiga við um þessi byggðarlög sem þarna eiga hlut að máli og þetta fyrirtæki.

Einnig er vert að hafa fleira í huga. Þegar fyrri verksmiðjan var byggð á Grundartanga var t.d. byggð ný höfn þar. Hún er í eigu þessara sveitarfélaga allra og Borgarnes er með í því líka, þ.e. Borgarbyggð núna. Auðvitað var þetta ekki verkefni sem snerti aðeins einn lítinn hrepp. Þarna fóru menn fram hjá því sem þurfti að gera, þ.e. að ákvarða þarna atvinnusvæði og skipa málum þannig að tekjur af og þjónusta við þetta fyrirtæki kæmu í réttan stað niður, á allt svæðið.

Hið ömurlegasta við þetta er hins vegar að menn skuli þarna sitja uppi með tvo bláfátæka hreppa meðan hinir velta sér í peningaflóðinu. Þetta er bara ákvörðun sem er tekin hér á hv. Alþingi að hafa þetta svona. Menn sitja uppi með að hafa ekki ráðið bót á því.

Ég vona sannarlega að tekjustofnanefndin skoði þetta vandlega. Ég er hins vegar fylgjandi því að menn skoði þetta frá hinni hliðinni eins og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir nefndi hér áðan, þ.e. að sveitarfélögin stækki. Auðvitað væri eðlilegast að sveitarfélögin á þessu svæði, a.m.k. þau sunnan Skarðsheiðar, væru í einu samfélagi, einu sveitarfélagi sem tæki yfir þetta svæði allt saman. Landfræðilega væri það eðlilegt. Þetta er mjög lítið svæði, tekur um 20 mínútur að keyra milli enda þess á alla kanta. Þannig er ekki um það að ræða að nein landfræðileg mörk ákvarði þetta heldur eru þetta gamlar hefðir og venjur, gömul landfræðileg mörk sem hafa fyrir löngu misst gildi sitt og ættu í raun að vera horfin.

Ég kem hingað fyrst og fremst til að þakka nefndinni fyrir að hafa þó farið yfir þetta mál. Vonandi verður framhald á þeirri umfjöllun, vonandi kemur eitthvað út úr tillögum tekjustofnanefndarinnar. Ég bind hins vegar ekki mjög miklar vonir við að þar verði niðurstaða sem leysi þetta mál. Hitt væri eðlilegra að Alþingi mannaði sig upp í að ákveða að sveitarfélög skuli hafa vissa stærð til að geta sinnt skyldum sínum við íbúana, verið burðug og uppfyllt alla þá þætti sem eitt sveitarfélag þarf að geta sinnt.