Álbræðsla á Grundartanga

Þriðjudaginn 04. apríl 2000, kl. 14:12:17 (5858)

2000-04-04 14:12:17# 125. lþ. 89.5 fundur 371. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# (fasteignaskattur) frv. 12/2000, ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 125. lþ.

[14:12]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég geri mér grein fyrir því að við erum að tala um mjög fámenn sveitarfélög í þessu tilfelli sem hv. þm. ræddi um. En ég var að ræða almennt um málin. Við þekkjum þetta vandamál mjög víða um landið og það gildir í raun og veru ekki bara um stóriðju heldur aðstöðugjald af ýmiss konar annarri starfsemi sem er í nágrenni þéttbýlis. Þetta er víða um landið. Þarna eru að vísu mjög lítil sveitarfélög. Ég tók meðaltal og var að tala um kannski 200--300 manna sveitarfélög. En ég get ekki séð annað en að við séum sammála um að það þurfi að taka á þessum málum og gæta jöfnuðar í þeim eins og öðrum. Það er óviðunandi að aðstöðumunur geti skapast vegna landsframkvæmda af þessu tagi. Ég tel að svo sé og er tilbúinn að standa að því að skoða miklu fleiri mál. Kannski er kominn tími á að skoða landskatt eina ferðina enn því að sveitarfélögin á suðvesturhorninu búa náttúrlega við yfirburðastöðu hvað varðar skattlagningu á sameiginlegum fyrirtækjum sem þjóna okkur öllum, svo sem í samgöngum sem eru ekkert smámál núna. Túrisminn er með 30 milljarða tekjur og flugþjónustan og ferðamálaþjónustan, ferðaskrifstofuþjónustan, er stór hluti af því. Kannski má því skoða niður í kjölinn landsfyrirtæki af þessu tagi og gera bragarbætur sem leiða til þess að við getum notið meiri jöfnuðar meðal sveitarfélaganna hver svo sem stærðargráðan er.