Álbræðsla á Grundartanga

Þriðjudaginn 04. apríl 2000, kl. 14:14:09 (5859)

2000-04-04 14:14:09# 125. lþ. 89.5 fundur 371. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# (fasteignaskattur) frv. 12/2000, Frsm. HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 125. lþ.

[14:14]

Frsm. iðnn. (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Hér hefur orðið ágæt umræða um í rauninni afskaplega lítið mál. Það er rétt sem hv. síðasti ræðumaður sagði að hér er verið að fjalla um orðinn hlut. Aðeins er um að ræða stækkun á álverinu á Grundartanga og byggir sá gjörningur á samkomulagi og lögum sem upphaflega voru sett. Hér er því aðeins um framlengingu á því að ræða. En það er rétt að taka það fram, herra forseti, að stærð starfseminnar skiptir máli í þessu tilviki en ekki eðli starfseminnar. Það er ekki vegna þess að hér sé um stóriðju að ræða eða álver að ræða. Sömu umræður væru uppi ef um væri að ræða t.d. stórt tölvufyrirtæki, samkomulag við eitthvert erlent tölvufyrirtæki sem hér hefði viljað fjárfesta. Stærð starfseminnar og áhrif hennar á lítil sveitarfélög í nágrenninu eins og hér hefur verið dregið fram leiðir til ákveðinnar mismununar þar sem tvö sveitarfélög njóta verulega góðs af en í nágrenninu eru önnur tvö lítil sveitarfélög sem berjast í bökkum. Síðan má nefna stærra sveitarfélagið, Akraneskaupstað, sem veitir íbúum nágrannasveitarfélaganna ákveðna þjónustu. Gegn þessu er síðan réttur sveitarfélaga samkvæmt gildandi lögum og svo það stórpólitíska mál að núverandi fyrirkomulag kann að draga úr vilja minni sveitarfélaga til þess að sameinast. Þetta er í rauninni það sem hv. iðnn. er sammála um og ber nú svo við að nefndin er sammála í áliti sínu. Út á það hafa umræður gengið og þessu beinir einmitt hv. nefnd til ríkisstjórnarinnar að hún taki á. Málin verða ekki leyst í tengslum við þetta eina mál. Það er í rauninni niðurstaða nefndarinnar um leið og hún mælir með samþykkt frv.