Hvíldarheimili fyrir geðsjúk börn

Þriðjudaginn 04. apríl 2000, kl. 16:17:47 (5893)

2000-04-04 16:17:47# 125. lþ. 89.13 fundur 263. mál: #A hvíldarheimili fyrir geðsjúk börn# þál., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 125. lþ.

[16:17]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. talaði um frv. félagsþjónustu sveitarfélaga sem hér liggur fyrir þinginu sem tryggja á sambærilegan rétt fyrir fötluð og sjúk börn. Allir geta verið sammála því. En það er einmitt það sem við höfum gagnrýnt hérna. Þessi börn hafa ekki sama rétt. Þegar rétturinn er kominn þá verða auðvitað úrræðin að vera til staðar. Úrræðin eru ekki til staðar. Ástandið í þjónustu við fötluð börn er meira að segja þannig enn þá í góðærinu að það vantar úrræði. Þau bíða á löngum biðlistum og það vantar víða úrræði fyrir fötluð börn. En það eru engin úrræði fyrir þessi börn. Það er ágætt að vera með fögur orð. Orð eru til alls fyrst og lagasetning um að þessi börn eigi að hafa sama rétt er auðvitað fyrsta skrefið. En það er bara ekki nóg. Þetta fólk getur ekki beðið endalaust eftir því að fá þjónustu.

Það að heilbrigðis- og félagskerfið eigi að vinna saman að því að veita þessa þjónustu vekur ákveðinn ugg í brjósti manns. Maður sér hvernig hlutirnir hafa gengið þar sem þessi kerfi hafa átt að vinna saman. Ég minni bara á íbúana fyrrverandi, íbúa Kópavogshælis, sem enn eru á Ríkisspítölunum, eru enn með heimili sitt inni á sjúkrastofnun, hátæknistofnun. Það fatlaða fólk ætti að eiga rétt á örorkubótum, ætti að eiga rétt á ferðaþjónustu fatlaðra og félagsþjónustu sveitarfélaga en fær enga af þessari þjónustu af því þeir eru enn þá inni á sjúkrastofnun. Þessi kerfi virka ekki saman. Það eru allir að ýta hlutunum frá sér. Þess vegna hefur maður áhyggjur af því þegar vísað er til samvinnu þar sem sporin hræða. Reynslan af því hvernig þessi kerfi hafa unnið saman er því miður þannig að maður hefur áhyggjur af slíkum áætlunum.