Hvíldarheimili fyrir geðsjúk börn

Þriðjudaginn 04. apríl 2000, kl. 16:30:38 (5896)

2000-04-04 16:30:38# 125. lþ. 89.13 fundur 263. mál: #A hvíldarheimili fyrir geðsjúk börn# þál., ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 125. lþ.

[16:30]

Ásta Möller:

Virðulegi forseti. Mig langar í lokin að árétta ýmsa þætti sem ég sagði áðan og vísa til þess að þegar ég var að skoða þessa þáltill. ræddi ég við fagfólk sem hefur mikla reynslu á sviði geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga. Í þeim samtölum kom fram að leggja þarf aukna áherslu á þjónustu við unglinga með því að styrkja sérhæfða hæfingardeild fyrir unglinga þar sem lögð er áhersla á langtímaúrræði og uppbyggingu á félagslegum þáttum gagnvart foreldrum og stuðningur við þá aukinn.

Þetta er í samræmi við svar hæstv. heilbrrh. nýverið hér í þinginu og stefnumótun ríkisstjórnarinnar í málefnum geðsjúkra barna þar sem kemur fram að í undirbúningi er opnun deildar fyrir langtímameðferð unglinga sem eiga við geðsjúkdóma að stríða.

Ég tek undir með því fagfólki sem ég ráðfærði mig við og legg áherslu á að úrræði fyrir börn og unglinga sem eiga við veruleg geðræn vandamál að stríða verði styrkt enn frekar með langtímaúrræðum þar sem m.a. verði gert ráð fyrir skammtímavistun þeirra, m.a. með hliðsjón af þörfum fjölskyldunnar fyrir hvíld um leið og unnið er að frekari hæfingu þessara einstaklinga til langframa.

Hins vegar er það ekkert launungarmál, eins og komið hefur fram í máli ýmissa ræðumanna hér í dag, að ákveðin hætta er á árekstrum um ábyrgð á þjónustu við geðsjúk börn milli félagslega kerfisins annars vegar og heilbrigðiskerfisins hins vegar varðandi hvíldarinnlagnir eða skammtímavistun, því að þótt verið sé að mæta sömu þörf eru hvíldarinnlagnir úrræði heilbrigðiskerfisins en skammtímavistun er úrræði félagslega kerfisins. Þarna reynir á samvinnu þessara tveggja kerfa samfélagsins og sérstaklega reynir á nýstofnað samstarfsráð félmrn. og heilbr.- og trmrn. um meðferð barna og unglinga með vímuefnavanda og hegðunar- og geðraskanir, sem hefur það hlutverk að vinna að samhæfingu þjónustu við þennan hóp barna og unglinga. Í samstarfsráðinu eiga sæti fulltrúar ráðuneytanna tveggja, Barnaverndarstofu, BUGL, Stuðla og SÁÁ.

Í þessu sambandi vil ég benda á að í ítarlegri skýrslu starfshóps sem hæstv. heilbrrh., Ingibjörg Pálmadóttir, skipaði um stefnumótun í málefnum geðsjúkra og skilaði tillögum sínum í október 1998 er gerð ítarleg grein fyrir stöðu málefna geðsjúkra barna og settar fram ítarlegar tillögur til úrbóta í málaflokknum. Þar er ekki sérstaklega nefnd þörf fyrir hvíldarheimili sem sérstaklega tæki börn með alvarlega geðsjúkdóma til skammtímavistunar. Í skýrslunni er hins vegar lögð rík áhersla á að styrkja þau úrræði sem þegar eru til staðar fyrir þessi börn. Þar er m.a. hægt að taka við börnum til skammtímavistunar, m.a. með það að markmiði að hvíla fjölskyldur um leið og barnið nýtur þjónustu til frekari hæfingar. Þó að ég útiloki alls ekki að einhverjar fjölskyldur mundu geta nýtt sér sérstakt hvíldarheimili þá tel ég réttara að styrkja þau úrræði sem þegar eru til staðar og koma þar til móts við þessar þarfir.