Rekstur Reykjadals í Mosfellssveit

Miðvikudaginn 05. apríl 2000, kl. 14:19:49 (5930)

2000-04-05 14:19:49# 125. lþ. 91.3 fundur 449. mál: #A rekstur Reykjadals í Mosfellssveit# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi KLM
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 125. lþ.

[14:19]

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller):

Virðulegi forseti. Í Reykjadal í Mosfellssveit hefur Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra rekið sumarbúðir með miklum myndarbrag frá árinu 1963. Sumarbúðir þessar voru fyrst í stað eingöngu fyrir hreyfihömluð börn og unglinga en hin síðari ár einnig fyrir þroskahefta.

Í haust bárust hins vegar þau tíðindi út að styrktarfélagið sæi sér ekki lengur fært að bjóða öðrum en hreyfihömluðum sumardvöl vegna hallareksturs nema viðbótarfjármagn fengist frá hinu opinbera. Þess bera að geta að heilbrrn. veitir tæpar 12 millj. kr. til þessarar starfsemi svo og hefur starfsemin verið fjármögnuð frá ýmsum styrktaraðilum og velunnurum.

Nú er hins vegar svo komið að þetta gengur ekki lengur. Rétt er einnig að geta þess að framlag ríkisins hefur eingöngu hækkað um 12% frá árinu 1992 og á sama tíma hafa taxtalaun hækkað um ein 40% eða rúmlega það. Gestum í þessari sumardvöl hefur hins vegar fjölgað úr 80 í 160.

Mér er kunnugt um að styrktarfélagið hefur skrifað félmrn. nokkur bréf en lítið verið um svör og þaðan af síður að ráðuneytið hafi veitt eitthvert fé sem heitið getur til þessarar mikilvægu starfsemi, eins og reyndar lög um málefni fatlaðra gera ráð fyrir og á ég þá við lagagreinarnar um skammtímavistun og sumardvöl.

Herra forseti. Á þeim þrem mínútum sem ég hef hér til að leggja fram og fylgja úr hlaði þessari mikilvægu fyrirspurn get ég ekki minnst á nema fáein atriði í þessu sambandi. En það er alveg ljóst að mitt í öllu góðærinu eiga hreyfihamlaðir og fatlaðir sér fáa málsvara í stjórnkerfinu hvað rekstur þessarar sumardvalar varðar, sem hefur auk þess veitt þessum þjóðfélagsþegnum mikla ánægju og gleði undanfarin ár og er einnig eina úrræði foreldra til að komast í frí.

Herra forseti. Ég trúi því ekki að 100 börnum og ungmennum sem eru fötluð en ekki hreyfihömluð verði úthýst í sumar frá sumardvöl í Reykjadal. Sumardvöl og sumarleyfi eru mikilvægir þættir í lífi okkar Íslendinga. Við heyrum frá metsölu ferðaskrifstofa til sólarlanda, góðærið hefur aukið þessi ferðalög og sumarfrí landans. En fötluð börn og unglingar eiga um svo sárgrætilega fáa kosti að velja. Sumarbúðir fatlaðra barna og unglinga eiga því ekki að verða út undan nú í miðju góðærinu.

Herra forseti. Fyrirspurn mín til hæstv. félmrh. er á þessa leið:

Hyggst ráðherra grípa til aðgerða til að tryggja áframhaldandi óbreyttan rekstur Reykjadals í Mosfellssveit í sumar?

Eru einhver önnur úrræði tiltæk á vegum ráðuneytisins hvað varðar sumardvöl fatlaðra næsta sumar sem kæmu í stað og/eða til viðbótar starfseminni í Reykjadal?