Rekstur Reykjadals í Mosfellssveit

Miðvikudaginn 05. apríl 2000, kl. 14:22:46 (5931)

2000-04-05 14:22:46# 125. lþ. 91.3 fundur 449. mál: #A rekstur Reykjadals í Mosfellssveit# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 125. lþ.

[14:22]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Í Reykjadal hefur Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra annars vegar rekið sumardvöl og hins vegar skammtímavistun fyrir fötluð börn og ungmenni. Rekstur sumardvalarinnar hefur til margra ára fengið framlag á fjárlögum undir heilbrrn. en aldrei fengið framlag frá félmrn. Í fjárlögum þessa árs eru áætlaðar 11,7 millj. kr. til sumardvalarinnar á fjárlagalið frá heilbrrn.

Í febrúar á síðasta ári sendi Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra erindi til félmrn. þar sem félagið fór fram á að ráðuneytið tryggði viðbótarfjármagn til starfsemi sumardvalarinnar. Starfsemi sumardvala er ekki lögbundið verkefni svæðisskrifstofa. Erindið kom til umfjöllunar í fjárln. við afgreiðslu fjárlaga og fengust á sérstökum fjárlagalið 2,5 millj. til styrktar sumardvölinni í Reykjadal.

Skammtímavistun hefur verið rekin í Reykjadal frá árinu 1992. Um hefur verið að ræða helgarvistun yfir vetrarmánuðina og hefur sú starfsemi notið fjárframlaga undir fjárlögum félmrn. Í fjárlögum þessa árs eru áætlaðar 2,6 millj. til helgarvistunar. Við afgreiðslu fjárlaga fengust alls 28 millj. til eflingar skammtímavistun hjá svæðisskrifstofum Reykjavíkur og Reykjaness og þessi aukning var í samræmi við tillögur nefndar um tæmingu biðlista.

Með vísan til þeirrar aukningar sem svæðisskrifstofurnar í Reykjavík og Reykjanesi fengu til þjónustu skammtímavistana athugaði ráðuneytið hjá framkvæmdastjórum þeirra sl. haust að þeir könnuðu möguleika á samstarfi við Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra um starfsemina í Reykjadal. Viðræður áttu sér stað á milli þessara aðila og svæðisskrifstofan í Reykjavík hefur þegar gengið frá samningi við Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra sem tryggir að helgarskammtímavistun í Reykjadal verði óbreytt á þessu ári.

Sérstakar sumardvalir fatlaðra eru sem sagt ekki skipulagðar af hálfu svæðisskrifstofa Reykjavíkur eða Reykjaness enda hvílir ekki sú skylda á þeim að reka sumardvalarstaði. Með lögunum um málefni fatlaðra frá 1992 varð sú breyting á að skylda ríkisins til þess að kosta starfsemi sumardvalarheimila var felld niður. Í lögum um málefni fatlaðra frá 1983 voru sumardvalarheimilin talin upp sem stofnanir þjónustu við fatlaða og kostnaður vegna þeirra greiddur úr ríkissjóði.

Lögin frá 1992 gera á hinn bóginn ráð fyrir að sumardvalir séu reknar af sveitarfélögunum en ríkinu sé heimilt að greiða umframkostnað vegna dvala fatlaðra barna. Og þar segir um sumardvalir:

,,Fötluð börn skulu eiga aðgang að sumardvöl sem rekin er af sveitarfélögum, félagasamtökum eða einstkalingum með sama hætti og önnur börn. Heimilt er ríkissjóði að greiða framlag vegna þess umframkostnaðar sem þjónusta við fötluð börn hefur í för með sér, enda hafi verið gert ráð fyrir þeim útgjöldum í áætlunum svæðisskrifstofa.``

Í fjárlögum þessa árs eru áætlaðar samtals 166 millj. kr. til starfsemi skammtímavistana fyrir fatlaða í Reykjavík og á Reykjanesi. Í Reykjavík eru 100 millj. kr. og á Reykjanesi 66 millj. kr. Það er því ekki svo að fötluð börn á þessu svæði séu algjörlega í þjónustuleysi.

Varðandi Reykjadal hefur verið ákveðið að félmrn. leggi fram 4 millj., heilbrrn. 4 millj. og svæðisskrifstofa 2 millj. Rekstur sumardvalar í Reykjadal verður því á þessu ári óbreyttur.