Meðferð á psoriasis

Miðvikudaginn 05. apríl 2000, kl. 14:57:16 (5946)

2000-04-05 14:57:16# 125. lþ. 91.5 fundur 476. mál: #A meðferð á psoriasis# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 125. lþ.

[14:57]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbrrh. svörin og öðrum þingmönnum sem hafa tekið til máls. Ég vil vekja athygli á því að þessi umræða er að hefjast núna vegna þess að fyrir þinginu liggur frv. sem við berum fram ásamt mér hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir, Pétur Bjarnason og Þuríður Backman þar sem við gerum tillögu um breytingar á lögum um þessi efni og segir í tillögunni sem við höfum borið upp, með leyfi forseta:

,,Beri meðferð hér á landi ekki fullnægjandi árangur að mati sérfræðinga skal Tryggingastofnun greiða kostnað við loftslagsmeðferð allt að 40 psoriasis-sjúklinga árlega á viðurkenndri meðferðarstöð erlendis í allt að fjórar vikur eftir því sem nánar er ákveðið í reglugerð sem heilbrigðisráðherra setur.``

Þetta er frv. til laga sem dreift hefur verið í þinginu og kemur senn til kasta þingsins að taka afstöðu til. En með því frv. sem við leggjum fram er lagt til að við hverfum aftur til fyrra horfs þegar fjörutíu manns fengu loftslagsmeðferð af þessu tagi árlega. Eins og hefur komið fram og kemur fram í svari við fyrirspurn frá mér sem hæstv. heilbrrh. hefur dreift í þinginu og vísaði til hér áðan, þá hefur mjög fækkað þessum ferðum á síðasta ári. Staðreyndin er sú að enda þótt siglinganefnd hafi afgreitt þrjár ferðir á árinu 1999 og sex ferðir á árinu 1998 mun engin umsókn hafa borist á árinu 1997 einfaldlega vegna þess að menn vissu að þeir fengju ekki leyfi til þessara ferða.

Það er ágætt og góðra gjalda vert að skírskota til vísindalegra rannsókna. (Forseti hringir.) Ég held að það sé líka ágætt að hlusta á þau rök sem sjúklingarnir sjálfir færa fram, því ég held að hv. þm., Pétur Bjarnason, hafi hitt hér naglann á höfuðið þegar hann sagði að þetta ...

(Forseti (ÍGP): Má ég minna hv. þm. að fara að þingsköpum.)

Ég mun gera það. Ég ætla að ljúka setningunni sem ég var byrjaður á. Ég vil taka undir með hv. þm. Pétri Bjarnasyni, um að þetta er persónubundinn sjúkdómur og það þarf að taka á honum á persónubundinn hátt.