Greiðsla þungaskatts erlendra ökutækja

Miðvikudaginn 05. apríl 2000, kl. 15:06:56 (5951)

2000-04-05 15:06:56# 125. lþ. 91.6 fundur 446. mál: #A greiðsla þungaskatts erlendra ökutækja# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., JónK (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 125. lþ.

[15:06]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Eins og fram kom er ekki fyrirhugað að breyta þessu fyrirkomulagi. Mér finnst það miður. Ég bendi á að þarna er um mjög sérstakar aðstæður að ræða og mjög sérstakar aðstæður við innheimtu sem hefur verið viðurkennt með breytingum á innheimtu hjá tollinum á Keflavíkurflugvelli.

Mér er fullljóst að ekki gilda sömu lagaákvæði um innheimtu tolla og innheimtu skatta eða þungaskatts. Ég vil þó beina því til hæstv. ráðherra að þetta mál verði skoðað og fylgst mjög grannt með þróuninni í þessu efni því að m.a. þeir útlendingar sem koma með ökutæki til landsins eru mjög vanbúnir að mæta þessum greiðslumáta. Fæstir þeirra eru með debetkort sem viðurkennt er með samningum við íslenskar bankastofnanir. Þarna er um mjög óþægilegt mál að ræða sem þarf að kanna til hins ýtrasta hvort ekki er hægt að ráða bót á.