Lækkun lyfjaútgjalda Tryggingastofnunar ríkisins

Miðvikudaginn 05. apríl 2000, kl. 15:08:51 (5952)

2000-04-05 15:08:51# 125. lþ. 91.7 fundur 516. mál: #A lækkun lyfjaútgjalda Tryggingastofnunar ríkisins# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi SighB
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 125. lþ.

[15:08]

Fyrirspyrjandi (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Í tengslum við meðferð hv. fjárln. á fjárlagafrv. hæstv. ríkisstjórnar fyrir yfirstandandi ár var starfandi vinnuhópur um málefni heilbrrn. sem íhugaði m.a. að leggja á þá kvöð að heilbrrn. næði sparnaði í lyfjakostnaði eða með lækkun á útgjöldum í lyfjakostnaði um 400 milljónir frá því sem ella mundi verða.

Nokkru síðar barst hins vegar erindi frá heilbrrn. sem átti í erfiðleikum með að uppfylla fjárlagaramma sinn. Þar lýsti ráðuneytið því yfir að það væri reiðubúið að gera tilteknar kerfisbreytingar á lyfjamálunum sem skila mundu 1.000 millj. kr. lækkun útgjalda frá því sem í stefndi. Fjárln. samþykkti þessa afgreiðslu með þessum hætti. Þessa frásögn hefur hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, sem á sæti í fjárln., staðfest hér á Alþingi.

Af þessum ástæðum og m.a. vegna þess að hæstv. fjmrh. gat ekki svarað slíkum spurningum í umræðutíma á Alþingi hér fyrr vegna þess að mælendaskrá var fullskipuð höfum við hv. þm. Ögmundur Jónasson lagt fram til hans svohljóðandi fyrirspurn:

1. Mun ráðherra krefjast þess að staðið verði við markmið fjárlaga fyrir árið 2000 um 1.000 millj. kr. lækkun lyfjaútgjalda Tryggingastofnunar ríkisins?

2. Mun ráðherra krefjast þess að því markmiði verði náð með því að hækka greiðsluhlutdeild sjúklinga þar sem engin breyting hefur enn verið gerð á fyrirkomulagi lyfsölu, verðlagningu lyfja eða innkaupum sem líkleg er til að skila slíkum sparnaði?

Þá stendur það eitt eftir, virðulegi forseti, að ná þessum árangri eða eitthvað upp í hann með því að breyta hlutfallaskiptingu á greiðslu fyrir lyf, auka hlut sjúklinga og lækka hlut Tryggingastofnunar ríkisins.