Vestnorræna ráðið 1999

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 14:42:15 (6016)

2000-04-06 14:42:15# 125. lþ. 94.3 fundur 388. mál: #A Vestnorræna ráðið 1999# skýrsl, 461. mál: #A ályktanir Vestnorræna ráðsins# þál. 15/125, ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[14:42]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekki annað en verið sammála hv. 1. þm. Suðurl., Árni Johnsen, um þessi störf. Ég geri mér grein fyrir því. En það sem stendur upp úr hjá mér þegar ég ræði um þessi mál er að ég hef fundið fyrir því í vinnu minni að á tíu ára tímabili í þessari Norðurlandasamvinnu höfum við --- ja, ég vil segja einangrast frá hinum Norðurlöndunum. Það hefur t.d. verið á sveitarstjórnarsviði, atvinnumálasviði. Þá hafa komið hingað sendinefndir í auknum mæli án þátttöku hinna Norðurlandaþjóðanna. Það sem ég er að setja fram er að við verðum að skoða þessi mál í nýju ljósi vegna þess að þó svo samvinna okkar sé góð og hana eigi að efla verðum við að gæta þess að missa ekki þau tengsl við Skandinavíu sem við höfðum. Ég fullyrði að þau hafa á síðustu árum minnkað stórlega og það er til tjóns til lengri tíma litið. Þeirri tengingu verðum við að koma á aftur.

Ég hef reynslu af þessari vinnu og þó að það sé góðra gjalda vert að hitta vini okkar, Færeyinga og Grænlendinga, til þess að ræða mál, þá saknaði maður oft og tíðum sárlega þátttöku hinna þjóðanna vegna þess að þær hafa ýmislegt til málanna að leggja sem gagnast okkur. Það er þessi vinna sem ég vil að við förum í, fyrst og fremst okkur til hagsbóta vegna þess að þessar stærri þjóðir hafa hluti til málanna að leggja sem við þurfum nauðsynlega á að halda. Ég er að tala um það í málflutningi mínum að við reynum kannski að rétta stefnuna og taka stöðuna í nýju ljósi vegna þess að það er lag til þess núna.

Ég held raunar að við séum öll sammála, virðulegi forseti, þannig að við þurfum svo sem ekki að eyða mörgum orðum í það.