2000-04-06 14:57:13# 125. lþ. 94.6 fundur 582. mál: #A staðfesting samninga um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum á árinu 2000# þál. 9/125, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[14:57]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef ekki þessar tölur á reiðum höndum en ég veit að þessi fiskstofn var hér fyrr á árum þegar best lét stærsti fiskstofn á Norður-Atlantshafi. Ég minnist þess að hann var á tímabili um 10 millj. tonn. Ef ég kann þessa útreikninga rétt, þá hefði samkvæmt fyrri viðmiðun verið í lagi að veiða 1,5 millj. lesta af síld en með þessu er það þá lækkað í 1.250 þús. lestir.

Ég vona að þetta varpi ljósi á stærðargráður í þessu sambandi, en það er okkar markmið, Íslendinga, að þessi mikilvægi fiskstofn nái sinni fyrri stærð. Það er afar mikilvægt að til séu nokkuð jafnir árgangar og það er fyrst og fremst elsta síldin og stærsta síldin sem leitar til Íslands. Þess vegna er svo mikilvægt að þessi síld fái að stækka því að það er hún sem mun leita inn í íslenska lögsögu. Þetta er jafnframt verðmætasta síldin eða sú síld sem var kölluð og gengur undir nafninu Íslandssíld, demantssíld. Það er nú svo að margir eru að selja síld undir þessu merki. Jafnvel þótt að Norðmenn kalli þennan stofn ekki norsk-íslenska síldarstofninn heldur norska vorgotssíldarstofninn þá vitum við mörg dæmi þess að þeir vilja hins vegar selja afurðirnar undir nafninu Íslandssíld.