Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 16:27:54 (6041)

2000-04-06 16:27:54# 125. lþ. 94.13 fundur 553. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (sauðfjárafurðir) frv. 88/2000, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[16:27]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki sáttur við það svar hæstv. ráðherra að kerfið eigi ekki sök á þessu vegna þess að kerfið hefur löngum verið að hvetja menn til framleiðslu alveg burt séð frá neytendum, markaði og þeim breytingum sem hafa átt sér stað. Meira að segja sá samningur sem samþykktur var síðast er með ásetningshlutfalli þannig að menn verða að hafa 0,6 ærgildi í búinu sínu til að fá óskertar bætur. Kerfið heldur því áfram og það á að halda áfram að hvetja menn til framleiðslu. Þeir geta ekki bara hirt beingreiðslur sínar án þess að þurfa að framleiða og vera á búinu áfram. Ég fullyrði því að það kerfi sem hefur verið í gangi hefur neytt menn til að hokra áfram í síminnkandi búum við sífelldar skerðingar og það er ekki fyrr en framsalið verður gefið frjálst að menn geta farið að hætta rekstri og selja kvóta sinn þeim bændum sem vilja halda áfram með stærri og arðbærari bú og þá fyrst mun koma í ljós hvert raunverulegt verðmæti þessa kvóta er þegar framsal hans er orðið algerlega frjálst. Þá gætu menn hætt með sóma og selt beingreiðslur sínar en ekki fyrr, og það verður ekki fyrr en eftir þrjú ár samkvæmt frv. Mér finnst því að við séum að halda áfram á þeirri braut a.m.k. þar til framsalið verður gefið frjálst.