Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 16:39:04 (6045)

2000-04-06 16:39:04# 125. lþ. 94.13 fundur 553. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (sauðfjárafurðir) frv. 88/2000, HjálmJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[16:39]

Hjálmar Jónsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Pétur Blöndal lætur sig varða landbúnað og það er gott. Þeir sem hugsa sér að vera í sauðfjárrækt áfram á Íslandi munu vafalaust hugsa til þess núna þegar þessi samningur hefur verið lögfestur og áður en hann tekur gildi hvað þeir hyggist fyrir, hvort þeir ætli sér að vera áfram eða hvort þeir ætli að hætta, þ.e. þeir bændur sem nú eru starfandi. Ég er nokkuð viss um að það verður ekkert erfitt að ná þessum 45 þúsund ærgildum, þ.e. að svo margir hyggist hætta fljótlega vegna þess að uppkaupatilboðið er allgott og þá geta menn sem ekki treysta sér í gæðastýringarkerfið hætt.

Hins vegar vil ég líka benda hv. þm. á að leiðbeiningarþjónusta í landbúnaði er allgóð og reyndar ágæt. Ráðunautar, dýralæknar og margir fleiri hafa ágæta yfirsýn yfir það hvernig bændur búa. Flestir sauðfjárbændur standa sig vel og framleiða góða vöru. Það er alveg ábyggilegt. Ég veit að hv. þm. getur ekið um sveitir og áttað sig á því. En markið er sett á aukin gæði eins og ég nefndi áðan og aukinn hreinleika og það er þetta sem almennar reglur verða settar um í framtíðinni, en núna er aðlögun að því.

Síðan vil ég benda hv. þm. á niðurlag ályktunar Sjálfstfl. á síðasta landsfundi um landbúnaðarmál, þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Öflugur og vel rekinn landbúnaður er þáttur í sjálfstæði hverrar þjóðar og leggur Sjálfstæðisflokkurinn áherslu á að íslenskur landbúnaður búi við sanngjörn samkeppnisskilyrði við framleiðslu á hollum og góðum búvörum.``

Við erum að stefna að hollari og betri búvörum.